Vikuviðtalið: Guðný Stefanía Stefánsdóttir

Ég heiti Guðný Stefanía Stefánsdóttir og er íþróttafræðingur að mennt. Ég bý í ,,landi kvöldsólarinnar“ eins og ein góð kona sagði við okkur Jón Hálfdán þegar við keyptum inn í Holtahverfi haustið 2010. Þegar ég flutti hingað haustið 2002 þá var ég tilbúin að búa hérna í ár kannski tvö – allt mitt fólk var á stórhöfuðborgarsvæðinu og það var töluverð áskorun að flytja hingað, en hér er ég enn og eins og staðan er núna þá langar mig ekki að fara neitt. Hér er gott að vera, á yndislega vini, frábæra tengdaforeldra í næstu götu og það er frábært að ala upp börn hérna, frelsið og allt sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða er ekki hægt að toppa.

Þegar ég var yngri var ég staðráðin í því að verða sögu- og landafræðikennari, það voru uppáhaldsfögin mín í skólanum og hef ég alltaf haft mikinn áhuga á þeim, endaði svo á ferðabraut í Menntaskólanum í Kópavogi, vann í lögreglunni nokkur sumur og endaði svo á Laugarvatni þar sem ég kláraði íþróttafræðina og kynntist Nonna mínum. Ég er mikil tölumanneskja, man flestar dagsetningar og ártöl og hef mikinn, sumir segja brjálæðislega mikinn, áhuga á ættfræði. Uppáhalds heimasíðan mín er islendingabok.is og hana nota ég daglega og spái í hvort þessi og hinn sé skyldur mér eða hverra manna hann/hún er.

Í vetur starfa ég sem aðstoðarskólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði. Ég hef kennt við skólann í 22 ár, byrjaði sem íþróttakennari og varð svo umsjónarkennari haustið 2017.

Það er gaman að segja frá því að þónokkrir samstarfsmenn hérna í skólanum eru einmitt fyrrverandi nemendur mínir. Við erum alltaf jafn glöð að fá þau inn til okkar og það segir okkur að við höfum gert eitthvað rétt. Það er svo gaman að hitta gamla nemendur í búðinni, annars staðar á landinu, nú eða bara á djamminu og fá knús, rifja upp skemmtilegan tíma og vita að maður hefur kannski hjálpað einhverjum einhvern tímann. Mér finnst alltaf gaman að mæta í vinnuna og ég hef lofað sjálfri mér því að þegar þetta verður ekki skemmtilegt lengur þá ætla ég að róa á önnur mið. 

Áhugamálin mín eru íþróttir og hannyrðir, sumir myndu kannski segja að sjálfboðaliði væri líka áhugamálið mitt. Ég elska allar íþróttir og hef mikið starfað við og fyrir íþróttahreyfinguna frá því ég man eftir mér.  Vestri og Hörður eru mín lið, ÍBV á stað í mínu hjarta sem Eyjakona og svo er ég mjög mikill Liverpool aðdáandi og ég hef einu sinni farið á Anfield, og á eftir að fara aftur. Ég veit lítið skemmtilegra en að sitja fyrir framan sjónvarpið, horfa á einhvern leik og prjóna eða hekla á meðan. Ég er með ákveðinn svip þegar ég er að prjóna og margir myndu segja að það væri ,,resting bitchface”

Við fjölskyldan höfum sett okkur markmið að fara á eins marga fótboltaleiki og hægt er. Við höfum nú þegar farið á leiki í nokkrum löndum og okkur langar að fara á enn fleiri og bæta við fleiri íþróttaviðburðum. 

Strákarnir okkar, Stefán Freyr, Pétur Þór og Hálfdán Breki eru allir í íþróttum og ég hef ekki tölu á þeim fótboltamótum sem ég hef farið á, en ef ég ætti að koma með tölu þá er hún nálægt 40, en það er auðvitað ekki hægt að halda tölu yfir leikina. Þeir eru allir í handbolta líka og mótin og leikirnir eru ótrúlega mörg og ég er einmitt að fara með þann yngsta og hans flokk til Reykjavíkur um helgina til þess að keppa í handbolta. Það eru ótrúlega gaman að vera fararstjóri og fá tækifæri til að vera með krökkunum í öllum þessum skemmtilegu ferðum.

Ég tel mig vera heppna, fæddist í Vestmannaeyjum, bjó á Stokkseyri og í Kópavogi áður en ég fór í háskólanám á Laugarvatni. Að þurfa að flytja nokkrum sinnum og eignast vini uppá nýtt hefur kennt mér svo margt og svo margt í lífinu mínu leiddi til þess að núna bý ég á Ísafirði í faðmi fjalla blárra.

DEILA