Viðreisn hélt opinn stjórnmálafund á laugardaginn á Dokkunni á Ísfirði. Auk oddvita listans í Norðvesturkjördæmi Maríu Rut Kristinsdóttur voru frummælendur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins og Jón Gnarr, fyrrv. borgarstjóri og frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavík.
Húsfyllir var á fundinum og ætla má að fundargestir hafi a.m.k. verið um 80 talsins, sem gerir þetta einn allra fjölmennasta stjórnmálafund á Ísafirði um árabil.
Þorgerður Katrín fór yfir stefnumál flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Sagði að lýsa mætti stefnunni sem hægri hagstjórn og vinstri velferð og því að setja almannahag umfram sérhagsmuni. Hún áréttaði stuðning Viðreisnar við fiskeldið á Vestfjörðum og sagði nauðsynlegt að klára framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit.
María Rut ræddi um efnahagsmál og þörfina á að ná verðbólgu niður lækka vexti og fór svo nokkrum orðum um áherslu sína um að stjórnvöld setji andlega líðan í forgang.
Að loknum framsöguræðum voru bornar fram fyrirspurnir og m.a. spurði Sigríður M. Gunnarsdóttir um afstöðu Viðreisnar til Álftafjarðarganga. Þorgerður Katrín svaraði og sagði að Viðreisn styddi göngin eindregið.
Jón Gnarr sagði neyðarástand ríkja í samgöngumálum á landinu. Vegirnir væru ekki gerðir fyrir þungaflutninga og mikinn fjölda ferðamanna. Hann sagði að stjórnvöld ættu að fækka fjallvegum og fjölga jarðgöngum.
Gísli Jón Kristjánsson spuri um orkumálin og afstöðu til virkjana a Vestfjörðum. Í svörum framsögumanna kom fram stuðningur við Hvalárvirkjun en Þorgerður Katrín sagðist þurfa að kynna sér betur hugmyndir um Vatnsdalsvirkjun og benti á að málið væri snúið þar sem Vesturbyggð leggðist gegn málinu.
Fullsetið var við hvert borð.
Hér má greina föður Maríu Rutar.
Forystumenn Viðreisnar á fundinum.