Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri segir aðspurð um það hvort verði nú hægt að bjóða út lokaáfangana á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit að það sé ótímabært að ræða það „hvernig framkvæmdir hjá okkur koma til með að líta út á næsta ári. Við erum að vinna þær áætlanir núna u.þ.b. jafnhliða afgreiðslu þingsins. Hins vegar get ég sagt að enginn fyrirstaða er hjá okkur í Vegagerðinni við munum vinna með tiltækt fé eins og kostur er og fara eins hratt af stað og nokkur möguleiki er.“
Meirhluti fjárlaganefndar Alþingis gaf út í gær álit sitt á fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár og þar segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að Vegagerðin, í samráði við innviðaráðuneyti, geti gert samninga við verktaka eins og í hefðbundnu árferði þar sem fyrir liggi forgangsröðun í gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Þar liggi fyrir tillögur um framkvæmdir varðandi vegi, flugvelli og hafnir.
Síðan segir í álitinu: „Heildarframlög til nýframkvæmda á vegakerfinu hækka milli ára og nema 27,4 ma.kr. á næsta ári. Veigamestu framkvæmdir verða á Vestfjörðum, m.a. á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, á Reykjanesbraut og á hringvegi um Hornafjarðarfljót. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að þeim framkvæmdum ljúki að mestu árið 2025 og því verði aukið svigrúm til nýrra verkefna árið 2026. Nefndin gerir ráð fyrir því að þá liggi fyrir samþykkt samgönguáætlun til fimm ára.“