Í tilkynningu frá Veðurstofunni sem var að berast segir að veðurútlitið á morgun hafi versnað á Vestfjörðum og Norðurlandi.
Fyrir utan almenna spá um mikla veðurhæð kemur kröpp lægðin við Vestfirði til með að slengja inn suðvestan-vindröst yfir norðanverða Vestfirði og Strandir. Allt að 28-32 m/s síðdegis, ofsaveður eða fárviðri og hviður um og yfir 50 m/s.
Veðurstofa Íslands er með gular og appelsínugular viðvaranir í gildi á morgun fyrir vestan-, norðan- og austanvert landið vegna suðvestan storms.
Búast má við mögulegum lokunum á vegum á Vestfjörðum um miðjan dag á morgun en frekari upplýsingar berast í fyrramálið. Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með veðurspám.