Unga fólkið ofarlega í huga

Unga fólkið okkar, framtíðin okkar, er það sem að mér er ofarlega í huga. Mörgum er umhugað um unga fólkið okkar og öll vonumst við til að þeim farnist vel í lífinu og sem 10 barna amma er ég þar ekkert undanskilin. Staðreyndin er hinsvegar sú að þeim farnast ekki öllum vel, þau misstíga sig, þau leiðast út á hála stigu, þau veikjast eða geta lent í slysi sem veldur þeim erfiðleikum til frambúðar. Stundum fáum við þau tilbaka eftir veikindin og stundum ekki. Ef að barn greinist með krabbamein fær það viðeigandi meðferð og allir gera sitt besta til að styðja við fjölskylduna og þannig á það að vera. Sumir þurfa því miður að sækja lækningu um langan veg og það er kostnaðarsamt en það er efni í aðra grein. Það sem að ég vil sagt hafa og vil benda á eru einstaklingar og fjölskyldur þeirra sem að glíma við fíknivanda. Viðhorf samfélagsins til þeirra eru því miður ekki alltaf góð. „Þetta er staða sem að þau hafa skapað sér sjálf svo að þau geta sjálfum sér um kennt“ er staðhæfing sem oft heyrist en fíknisjúkdómur er sjúkdómur og lækning og hjálp við honum á að vera jafn sjálfsögð og við öðrum veikindum. Fréttir liðinna vikna um ungt fólk í fíknivanda hafa reynt á marga og þjóðfélagið þarf að styðja betur við og bæta meðferðarúrræði og styðja við þær stofnanir sem fyrir eru. Þessi málaflokkur er fjársveltur og starfsfólkið úrvinda. Við þurfum að breyta viðhorfum til þessa hóps og hlúa að þeim og aðstandendum þeirra. Samtökin Það Er Von hafa gert gott og þarft starf og hafa stutt við fólk sem er að bíða eftir að komast í meðferð og stuðningurinn felst meðal annars í því að borga ráðgjafaviðtal. Þetta eru samtök sem að þyrftu meiri stuðning en þau eru að fá.

Mér verður hugsað til orða Gunnars Smára þegar að hann var í viðtali og spurði Samtök Iðnaðarins hvers vegna þau séu að biðja um ríkisstyrki og skattaafslætti ef að það séu þau sem búi til öll verðmætin. Í sama viðtali nefndi hann sem svo að af hverju ekki að halda arðinum heima en ekki erlendis og fyrirtækin ættu í raun að vera að spyrja spítala og aðrar stofnanir samfélagsins „Getum við orðið ykkur að liði? Getum við aðstoðað ykkur á einhvern máta?“ Útgreiddur arður fyrirtækis er aldrei allur afgangurinn þegar að búið er að sinna öllu í rekstrinum og eftir situr slatti af peningum þannig að það er bæði hægt að greiða út arð og að leggja til samfélagsins þar sem að skóinn kreppir að. Ef að arðbærustu fyrirtæki landsins gæfu meira til samfélagsins þá litu hlutirnir aðeins öðruvísi við. Auðvitað er ekkert að því að reka fyrirtæki með gróða og standa vel en með auðinn að baki er hægt að gefa til samfélagsins og á þann máta jafna út gróðann. Það græða allir á bættri stöðu okkar veikustu og viðkvæmustu.

Jónína Björg Magnúsdóttir,

2.sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norð Vestur kjördæmi.

DEILA