Jafnræði í strandveiðum hefur oft verið til umræðu og eðlilega eru skiptar skoðanir um hvernig auknu jafnræði er náð. Ein hugmyndin, sem menn úr greininni hafa kynnt, er að breyta úthlutuninni í daga á bát sem veiða má innan tímabilsins. Magn í hverri veiðiferð verði svipað og er í dag, veiðitími innan sólarhrings áfram 14 klst., svigrúm með umframafla verði aukið ofl.
Hugmyndin um að auka svigrúmið er góð m.a. hvenær strandveiðimenn geti sótt skammtinn. Slíkt svigrúm getur verið til þess fallið að auka öryggi og verðmæti aflans sem landað er.
Það er einnig mikilvægt að stjórnmálamenn hætti að gefa væntingar um að einfalt sé að færa aflaheimildir frá einum til annars eða einu kerfi í annað.
Þegar strandveiðiðkerfið er sett á laggirnar var hugmyndin að auka líf í byggðum og gefa mönnum færi á að róa og skapa sér tekjur. Ekki var hugmyndin að það kerfi væri sett á einhvern hátt til höfuðs aflamarkserfinu hvað þá að það yrði sett í kvóta.
Stjórnmálamenn sem lofa frjálsum handfæraveiðum eða að færa heimildir út aflamarksherfinu í strandveiðikerfið eru að slá ryki í augu fólks. Frjálsar handfæraveiðar eru afar ólíklegar þótt ekki væri nema vegna þess að sala á sjávarafurðun er í langflestum tilfelllum bundin því að veiðarnar séu vottaðar sem sjálfbærar en ekki er hægt að sýna fram á slíkt með óheftri sókn í auðlindina. Því yrði útflutningur á afla úr frjálsum handfæraveiðum erfiður, verðið lægra og allir tapa.
Að okkar mati er skynsamlegra að ná aukinni sátt um hvernig við gerum kerfið sanngjarnara, öruggara og auka verðmætasköpun t.d. með útfærslu á dagakerfi. Hins vegar þegar kemur að aukningu í heildarafla er möguleiki á að skipta henni milli kerfa.
Umræða um byggðakvóta er ekki síður flókin en rétt að taka þá umræðu af festu, hvort halda eigi áfram með óbreytt kerfi, einfalda það eða leggja það niður og láta þær heimildir renna til strandveiðikerfisins. Þetta þarf að ræða af ábyrgð og skynsemi en ekki með upphrópunum.
Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Páll Jónsson
Höfundar skipa 2. Og 3. sæti lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum.