Strandabyggð – er þetta fjandans lýðræði að þvælist fyrir?

Á fundi 1370 í sveitarstjórn Strandabyggðar báðust þrír fulltrúar af T lista Strandabandalagsins lausnar frá störfum, þar af tveir án uppgefinnar ástæðu. Áður höfðu tveir fulltrúar sama lista misst kjörgengi vegna brottflutnings úr sveitarafélaginu. Einn af þeim sem baðst lausnar á síðasta fundi sagði ástæðuna vera hótanir frá baklandi A lista (sjá fundargerð 1369). Núna, rúmum mánuði síðar, hefur ekkert komið opinberlega fram um stöðuna en vonandi skýrist það innan tíðar. Meðan mál eru ekki skýrð eru gróusögur og getgátur á fullri ferð og sökum varpað á einstaklinga sem mögulega hafa ekkert til saka unnið.

Þegar dagskrá fundar 1370 var tæmd lagði Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar fram bókun frá sjálfum sér þar sem hann fer stórum, kennir öðrum um ástandið, talar um árásir á lýðræðið, misnotknun á málfrelsi og rétt til málflutings í sveitarstjórn, heift og obeldi. Jafnframt talar hann um árásir á kjörna fulltrúa og starfsumhverfi þeirra.

Ég vil reka þessa orðræðu oddvita til föðurhúsanna og hvet um leið hann og aðra fulltrúa T lista að skoða mál  í eigin ranni.  Það má draga það fram hér að í tíð síðustu sveitarstjórnar árin 2018-2022 þegar Þorgeir var sveitarsjtóri var mikill flótti úr sveitarstjórn. Helmingur allra kjörinna fulltrúa flutti á brott eða baðst lausnar frá störfum. Þeim flótta lauk eftir að sveitarstjóra var vikið úr starfi. Getur verið að einhverjir samskipta- og/eða samstarafsörðugleikar séu milli oddvita og annarra sveitarstjórnarfulltrúa sem gerir það að verkum að kjörnir fulltrúar sjá sér ekki fært að sitja áfram í sveitarstjórn?

Í bókuninni talar Þorgeir um lýðræðið og að T listinn hafi farið með yfirgnæfandi sigur í lýðræðislegum kosningum. Ég veit ekki um neinn sem hefur efast um niðurstöður kosninganna sjálfra. Ég veit hinsvegar um marga sem voru ósáttir við orðræðu Þorgeirs í aðdraganda og kjölfar kosninganna og einstaklingar í sveitarfélaginu hafa þurft að verjast ósönnum ásökunum og rógburði af hans hálfu. Ég gæti alveg trúað því að rógburðurinn og ósannindin hafi haft áhrif á einhverja kjósendur og þar með á niðurstöður kosninganna. Það má velta fyrir sér lýðræðinu í því sambandi.

Eitt af stefnumálum T listans var að auka gagnsæi í allri stjórnsýslu með því að streyma frá sveitarstjórnarfundum. Það byrjaði ágætlega en tilkynnt var í október 2023 að öllu streymi á vegum sveitarfélagsins væri hætt vegna þess að umræðan í kjölfar fundanna var ekki á þann veg sem oddviti vonaðist til. Það má velta fyrir sér lýðræðinu í því sambandi, já eða málfrelsinu.

Einstaklingar í sveitarfélaginu hafa þurft að verjast ásökunum, dylgjum og rógburði af hálfu Þorgeirs. Þegar þeir einstaklingar verja hendur sínar, krefjast skýringa eða sannana, þá er það ekki árás á kjörna fulltúa eða lýðræðið, það er einfaldlega verið að verjast árásum kjörins fulltrúa, oddvita og sveitarstjóra á hendur einstaklinga í sveitarafélaginu. Ætli það geti kallast „valdníðsla“?

Þegar pistlar eru skrifaðir  þar sem leitast er við að leiðrétta það sem ranglega hefur verið sagt og haldið fram, þá er það ekki árás á kjörna fulltrúa eða lýðræðið,  þá er einfaldlega verið að koma því sem rétt er á framfæri – leiðrétta rangfærslur og ósannindi sem æðsti maður sveitarfélagsins hefur dreift eða látið viðgangast.

Síendurteknar ásakanir Þorgeirs um að Jón Jónsson hafi þegið 61mkr í styrki frá sveitarfélaginu síðustu 20 ár hafa verið hraktar í úttekt KPMG. Samt heldur oddvitinn áfram en reynir að snúa útúr og segist ekki hafa sagt það sem hann sagði. Hvernig er hægt að taka mark á manni sem segir eitt en meinar eitthvað allt annað … alla vega þegar hann áttar sig á því að hann hafi farið rangt með.

Það að Galdrasýning á Ströndum hafi fengið styrki og/eða greitt fyrir að reka upplýsingamiðstöð fyrir Strandabyggð er ekki peningur í vasa Jóns Jónssonar eða annarra einstaklinga. Það að Sauðjársetur á Ströndum hafi fengið styrki frá sveitarfélaginu þá er það ekki peningur í vasa Jóns Jónssonar eða annarra einstaklinga. Það að Skíðafélag Strandamanna hafi fengið styrki frá sveitarfélaginu þá eru það ekki (svo ég viti til) peningar í vasa Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur, fyrrverandi varaoddvita og annars manns á T listanum í sveitarstjórn Strandabyggðar (sem baðst lausnar á síðasta fundi), jafnvel þótt hún sé formaður fjáröflunarnefndar skíðafélagsins og eiginmaður hennar í stjórn Skíðafélags Strandamanna. Ég held bara að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni, jafnvel þótt ekki hafi ekki verið gerð úttekt á því.

Þetta með „misnotkun á málfrelsi og rétt til málflutnings í sveitarstjórn“ – hvað er átt við hér? Vill oddvitinn stjórna því hvað kjörnir fulltrúar tala um eða setja á dagskrá umfram það sem lög og reglur segja til um? Við vitum að kjörnir fulltrúar A lista hafa átt í erfiðleikum með að fá mál sett á dagskrá sveitarstjórnarfunda og undan því hefur verið kvartað. Við höfum orðið vitni að því að oddvitinn svarar fyrir kjörna fulltrúa af eigin lista við afgreiðslu mála. Ég neita því ekki að orðið „einræðistilburðir“ komu upp í hugann þegar ég las þessa bókun oddvita. Maður spyr sig: Er þetta fjandans lýðræði farið að þvælast fyrir mönnum?

Með góðri kveðju,

Andrea K Jónsdóttir, athafnakona

DEILA