Sósíalistaflokkurinn: auðlindir nýttar í innviðauppbyggingu

Guðmundur Hrafn Arngrímsson er oddviti Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann var beðinn um að gera grein fyrir sér og jafnframt að svara spurningum um afstöðu til laxeldis og virkjana á Vestfjörðum:

Ég heiti Guðmundur Hrafn Arngrímsson frá Seljanesi við Ingólfsfjörð. Ég er Bolvíkingur í húð og hár og lít alltaf á víkina fögru sem heimili mitt. 

Ég menntaði mig í landslagsarkitektúr og  vann við fagið hjá Kaupmannahafnarborg og síðar hjá VSO ráðgjöf hjá Reykjavíkurborg. Á yngri árum stundaði ég sjómennsku og hefðbundin verkamannastörf tengdum sjávarútvegi. Ég lærði grjót og torfhleðsur fyrir aldarfjórðungi og hef alltaf unnið reglulega við slíka vinnu.

Eftir efnahagshrunið sinnt fræðslu og þjálfun tengd útinámi fyrir nemendur og kennara sem komu víðsvegar að úr heiminum. Síðustu 3 ár hef ég verið formaður leigjendasamtakana og barist fyrir bættum kjörum og réttindum þeirra. (leigjenda)

Helstu stefnumál Sósíalistaflokksins á landsvísu eru að breyta starfsháttum á alþingi í þá veru að öll ákvarðanataka taki fyrst og fremst mið af hagsmunum almennings en ekki fjármagns. Að auðlindir lands og hafs verði nýttar í innviðauppbyggingu og til að standa undir uppbyggingu og rekstri á grunnkerfum landsins. Eitt af aðaláherslum sósíalista er að af-braskvæða húsnæðismarkaðinn, setja hömlur á uppkaup stóreignafólks og fjárfesta á íbúðum, setja viðmið og hámark fyrir húsaleigu. 

Helstu stefnumál Sósíalistaflokksins sem varða Norðvesturkjördæmi eru að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar og að allur landaður bolfiskur í höfnum landsins verði seldur á markaði. Sósíalistar leggja höfuðáherslu á að samgönguinnviðir í kjördæminu stuðli að bættu umferðaöryggi og greiðari samgöngum innan kjördæmisins. Það er sérstaklega mikilvægt að vegakefið þjóni atvinnuvegum og þörf íbúa til þess að sækja sér þjónustu, menntun, frístundir og afþreyingu innan og á milli héraða. Vegakerfið á Vestfjörðum þarf sérstaka athygli og mikilvægt að íbúar þar búi við sömu gæði og öryggi og íbúar annars staðar á landinu. Í allri stefnumörkun hjá Sósíalistaflokknum eru hagsmunir almennings í forgrunni, að arður af verðmætasköpun verkafólks verði til þess að bæta lífsgæði þess sem og að arður af nýtingu auðlinda í þjóðareign fari mikið meiri mæli til fólksins en ekki fjárfesta.

Sósíalistaflokkurinn er fjöldahreyfing þar sem hagsmunir almennings eru í fyrirrúmi, þar sem stóra verkefnið er að minnka tangarhald auðstéttarinnar á stjórnvöldum. Sósíalistar hafa nú þegar haft mikil áhrif á samfélagið án þess þó að eiga fulltrúa á þing. Það höfum við gert með því að taka þátt í því að styrkja og byggja upp Samstöðina, sem er orðin mikilvægasti fjölmiðill landsins fyrir samfélagsumræðu, með endurreisn Leigjendasamtakanna, með því að hafa mikil áhrif innan borgarstjórnar Reykjavíkur og með því að endurlífga alvöru verkalýðsbaráttu með tilkomu Sólveigar Önnu í formennsku Eflingar.

Við finnum fyrir miklum meðbyr og hversu ólík við erum öðrum framboðum með einföldum skilaboðum um hversu mikilvægt er að breyta starfsháttum á alþingi, að arður af auðlindum fari í innviðauppbyggingu, stöðva einkavæðingu og markaðsvæðingu á innviðum, s.s. og á húsnæði, heilbrigðisþjónustu og menntun.

Afstaða til laxeldis : Sósialistar leggja höfuðáherslu á að öll ráðstöfun er tekur til uppbyggingu atvinnutækifæra á landinu sé á forsendum náttúrunnar og samfélagsins. Sósíalistaflokkurinn hefur ekki markað sér sértæka afstöðu varðandi þessa atvinnugrein. Ég er persónulega er fylgjandi verðmæta- og atvinnusköpun á landinu, þar á meðal fiskeldi, hvort sem er í sjókvíum eða á landi að ákveðnum atriðum uppfylltum. Þau eru að tryggja þarf með öllum ráðum að hagsmunir náttúru, lífríkis, bæjarfélaga og íbúa þeirra sé ávallt í fyrsta sæti, þegar ákvarðanir í þeim efnum eru teknar. Varðandi fiskeldi í opnum sjókvíum þarf sérstaklega að huga að dýravernd, sjónmengun og mengun frá lífrænum efnum. Annað grundvallaratriði að mínu mati er að þau verðmæti sem vinnandi hendur skapa og arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda okkar skili sér á réttlátan hátt inn í samfélagið. Í þessu samhengi verður að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem að standa vörð um náttúruvernd og lífríkið við strendur landsins, því huglægir hagsmunir um verndargildi náttúrunnar eiga ekki að víkja sjálfkrafa fyrir fjárhagslegum hagsmunum fjárfesta.

Fiskeldi í sjó er arðbær og vaxandi atvinnugrein sem hefur verið lyftistöng fyrir bæjarfélög á Vestfjörðum, því er grundvallaratriði að sá rammi sem greininni verði skipaður sé hugsaður til framtíðar. Mikilvægt er að fiskeldi í sjó uppfylli öll skilyrði um dýravernd og verndun lífríkis, að arður af greininni skili sér til samfélagsins og það sé í sátt við sjónarmið íbúa og hina gríðarlega verðmætu náttúru sem við Vestfirðingar eigum og varðveitum fyrir komandi kynslóðir. 

Sósíalistar eru fylgjandi aukinni raforkuframleiðslu þar sem innviðir eru í almannaeigu.

Hvalárvirkjun : Sósíalistar hafa skýra og ábyrga stefnu varðandi orkuöflun og nýtingu. Frumforsenda fyrir því að bæjarfélög á Vestfjörðum geti vaxið og dafnað er að hafa aðgang að tryggri orku sem þjónar íbúum, grunnkerfum og atvinnufyrirtækjum. Til að svo megi verða þarf í fyrsta lagi að klára hringtengingu um Vestfirði, samhliða því þarf að gera ítarlega grein fyrir aukinni orkuþörf á Vestfjörðum í samhengi við aukna orkuþörf á landinu öllu og nýtingu hagkvæmra virkjanakosta. Þegar hringtengingu er komið á og Vestfirðir þar af leiðandi komnir í öruggt samband við dreifikerfi orku á landsvísu, þá þarf að meta alla virkjanakosti út frá heildarsamhengi þessa málaflokks. Þar sem Hvalárvirkjun er inni á rammaáætlun er augljóst að þessi virkjanakostur verður einhvern tímann nýttur til raforkuframleiðslu.  

Eg hef heyrt talað um virkjun Hvalár allt frá blautu barnsbeini og varð ekki var við að slíkar hugmyndir hafi verið mikið talaðar niður í minni ástkæru sveit, Árneshreppi, enda voru hugmyndir um virkjun Hvalár af allt annari stærðargráðu og með önnur markmið en nú eru uppi. Svo útkljá megi umræðu um nýtingu Hvalár þarf að ríkja fullvissu um að farið sé eftir öllu hefðbundnu verklagi og að markmiðið sé að mæta aukinni orkuþörf á Vestfjörðum sem ekki verði mætt með öðru móti. Að öðru leiti vísa ég í fyrri orð mín um að hagsmunir almennings og náttúru verði ávallt að vera í forgrunni í nýtingu sameiginlegra auðlinda. Að sama skapi skiptir miklu máli hvernig eignarhaldi er háttað og hvers eðlis sú starfsemi er sem nýtur þeirra raforkuframleiðslu sem Hvalárvirkjun gæti skilað, um slíkt þarf að ríkja gagnsæi og að heiðarleg vinnubrögð verði viðhöfð. 

Vatnsdalsvirkjun : Varðandi Vatnsdalsvirkjun er augljóst að sá virkjunarkostur er að mörgu leyti fýsilegri með tilliti til staðsetningar og núverandi flutningskerfis, en við Sósíalistar leggjum áherslu á að gætt sé að sjónarmiðum náttúruverndar og að þau sjónarmið séu vegin með tilliti til sjónarmiða samfélagsins og atvinnuveganna á Vestfjörðum. Þar sem þessi virkjanakostur er í friðlandi og umhverfið með hátt verndargildi verður að ríkja fullvissa um að nýting þessa virkjanakosts sé óumflýanleg til að mæta aukinni þorf á raforku fyrir svæðið. Við erum fylgjandi aukinni orkuöflun sem ekki verður um flúin, þar sem farið verði eftir verklagi sem sátt ríkir um og að þeir innviðir sem byggðir verði upp séu í eigu almennings og þjóni fyrst og fremst hagsmunum hans. 

DEILA