Skólahald á ný í Finnbogastaðaskóla

Skólahald er hafið að nýju í Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík í Árneshreppi, en skólahald þar hefur legið niðri síðan 2018. Nú eru fluttar tvær fjölskyldur með börn á skólaaldri í hreppinn og jafnvel von á fleirum svo gengið var í að hefja skólastarf á ný. Finnbogastaðaskóli er rekinn sem skólasel frá Grunnskólanum á Drangsnesi og er stefnt að því að hafa eins mikið og gott samstarf á milli skólanna tveggja og kostur er. Þannig er stefnt að því að börnin dvelji á Drangsnesi og sæki skóla þar eina viku  í mánuði á meðan færð og aðstæður leyfa og vonandi geta Drangsnesbörnin fengið að koma í heimsókn í Árneshrepp með vorinu. Skólastjóri Grunnskólans  á Drangsnesi er Ásta Þórisdóttir.

Auglýst var eftir kennara með réttindi til starfa í skólann en það hefur ekki gengið enn, svo Bjarnheiður Júlía Fossdal var ráðinn leiðbeinandi í Finnbogastaðaskóla, en hún hefur mikla og langa reynslu af skólastarfi.

Á dögunum héldu nemendur og starfsfólk skólans opinn dag. Nánast allir íbúar hreppsins komu í heimsókn og bökuðu skólabörnin vöfflur handa gestunum. Almenn ánægja ríkir með að skólahald skuli vera hafið á ný og standa vonir til þess að starfið eflist og dafni, rétt eins og börnin.

Frá Finnbogastaðaskóla.

Myndir:aðsendar.

DEILA