Miðflokkurinn leggur upp með nokkur sértæk málefni fyrir komandi kosningar þar með talið samgöngumál. Önnur málefni má m.a. finna á heimasíðu flokksins https://midflokkurinn.is/kosningar2024
Staðbundnir Samgöngusáttmálar.
Mánudaginn 11. Nóvember sl. hélt Innviðafélag Vestfjarða fjölmennan og góðan fund um samgöngumál á Vestfjörðum. Áherslur félagsins koma m.a. fram í sk. Vestfjarðalínu þar en í kynningu hennar segir m.a.: “ Vestfjarðalína er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum.”
Þessi hugsun Vestfirðinga er algerlega í takti við áherslur Miðflokksins í samgöngumálum. Í fyrsta lið í kosningaáherslna Miðflokksins í samgöngumálum segir: “Rjúfum kyrrstöðuna á landsbyggðinni. Koma þarf vinnu við jarðgöng aftur af stað og rjúfa þannig kyrrstöðuna. Forma skal staðbundna samgöngusáttmála þar sem horft er til landshluta og framkvæmda innan þeirra með heildstæðum hætti.”
Vilji Vestfirðinga og Miðflokksins fer því saman. Að horfa heildstætt á svæðin og koma framkvæmdum af stað.
Borgarlína gleypir fjármagn og enn er unnið gegn flugvellinum
Staða vegakerfisins er orðin grafalvarleg vegna viðvarandi viðhaldsleysis. Við ætlum að bregðast við því og fara að framkvæma því það er eitt mikilvægasta skrefið í því að efla byggðir landsins. Lengi hefur vegakerfið ekki notið þeirra fjármuna sem ríkið fær af akstri og ökutækjum en til þess að hraða megi nauðsynlegri uppbyggingu þess verða tekjurnar af þeim sem nota það að renna til uppbyggingar þess.
Borgarlína er bruðl sem eftirfarandi flokkar bera höfuð ábyrgð á: Sjálfstæðis-, og Framsóknarflokkur, Vinstri græn, Samfylkingin, Viðreisn og Píratar. Þessir flokkar hafa vélað um þessa peningahít sem Borgarlínan er. Við ætlum að falla frá Borgarlínu og spara tugi og hundruð milljarða sem nýtast þá í alvöru samgöngubætur um land allt. Almenningssamgöngur má leysa með ódýrari og skilvirkari hætti eins og margoft hefur verið bent á.
Þessir sömu flokkar hafa leynt og ljóst unnið að því að gera Reykjavíkurflugvöll ónothæfan með því að þrengja að honum. Nýverið var upplýst að formaður Framsóknarflokksins og formaður VG standa ekki gegn því að þrengt sé að flugvellinum en borgin vill meira land við völlinn.
Röðun jarðganga
Á áðurnefndum fundi var kallað eftir því að fundarmenn röðuðu jarðgöngum í mikilvægisröð. Við efumst um að frambjóðendur séu best til þess fallnir enda kusum við að gera það ekki. Heimamenn hafa meira vit á mikilvægi jarðganga og því eigum við að hlusta á þá. Heimamenn þekkja best mikilvægi öryggis, umferðar, þjónustu, farartálma os.frv. og sé það mat heimamanna að byrja eigi á göngum milli Súðavíkur og Ísafjarðar þá hljóta stjórnmálamenn að hlusta á það.
Fjármögnun framkvæmda
Hugmyndir um að hluti af skatttekjum sem svæði skapa samfélaginu renni til innviðauppbyggingar á viðkomandi svæði verður að skoða í fullri alvöru. Á vakt Sjálfstæðis- , Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur rekstur ríkisins blásið út án þess að við sjáum nokkra breytingu á högum landsmanna. Það er því ósanngjarnt að landsbyggðin haldi áfram að greiða fyrir eyðsluæði þessara flokka án þess að njóta þess á nokkurn hátt.
Staðbundnir samgöngusáttmálar verða okkar leið til að horfa heildstætt á hvernig þessir lykil innviðir geti orðið ásættanlegir.
Þannig rímar stefna okkar beint við hugmyndir Innviðafélags Vestfjarða.
Ingibjörg Davíðsdóttir
Gunnar Bragi Sveinsson
Höfundar skipa 1. og 2. sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi