Sl. þriðjudag heimsóttum við, ásamt Sigurði Páli, fyrirtæki á Ísafirði og héldum fund á Dokkunni um kvöldið.
Síðdegis þann dag kynnti Innviðafélag Vestfjarða “Vestfirska efnahagsævintýrið – samfélagsspor Vestfjarða”. Kynningin byggir á úttekt KPMG á skattspori Vestfjarða og því sem kallað er “Samfélagsspor Vestfjarða” sem eru greiddir skattar svæðisns að frádregnum framlögum úr ríkissjóði.
Sýnt er framá að samfélagsspor svæðisins (það sem Vestfirðir leggja til samfélagsins umfram það sem svæðið fær til baka) hefur aukist ár frá ári frá árinu 2019. Árið 2019 var samfélagssporið 4.1 milljarður króna en 6.6 milljarðar 2023.
Þá kemur fram að skattar greiddir 2019 voru 10.3 milljarðar en spá gerir ráð fyrir að 2028 verði þeir 22.6 milljarðar króna.
Enginn þarf að efast um framlag Vestfjarða til samfélagsins og án efa má yfirfæra þessa nálgun á landsbyggðina sem heild. Niðurstaðan er trúlega svipuð, að landsbyggðin leggur meira til samfélagsins en hún fær úr sameiginlegum sjóðum.
Þegar innviðir landsins eru skoðaðir sjáum við að vegagerð og viðhaldi vega hefur ekki verið sinnt, orkuinnviðir eru veikir og hamla jafnvel uppbyggingu, orkukostir hafa ekki verið nýttir, samfélagsþjónustan eins og heilbrigðisþjónusta er víða á brauðfótum os.frv. á sama tíma og kostnaður íbúa eykst ár frá ári. Því er ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að stærri hluti greiðslna samfélaganna á Vestfjörðum skili sér til baka.
Það skiptir miklu að geta treyst því að fjárveitingar séu látnar í friði svo íbúar séu ekki leiksoppar stjórnmálanna. Nýverið voru t.d. fjármunir færðir úr framkvæmdum á Vestfjörðum í framkvæmdir í kjördæmi fjármálaráðherra. Til að bjarga andlitinu fyrir kosningar var fjárlaganefnd sett í að finna fjármagn á ný. Á sama tíma eru skóflustungur teknar á færibrandi af mönnum sem hafa haft nærri átta ár til að framkvæma hlutina en velta ábyrgð framkvæmdanna áframtíðina. Slík vinnubrögð eru óþolandi, skapa óvissu, ófyrirsjáanleika og sýna mikinn tvískinnung.
Við vitum að fjármagnið sem fer í alltof dýra brú og borgarlínu verður ekki notað í vegagerð á öðrum stöðum.
Það verður að hætta þessum kjánaskap. Landsbyggðin hefur verið skilin eftir og því þarf að breyta. Þegar kemur að samgöngum viljum við skila fjármagninu sem innheimt er af umferðinni í framkvæmdir. Við viljum samgöngusáttmála fyrir hvert svæði, við viljum virkja strax það sem er í nýtingarflokki og gera einstaklingum og fyrirtækjum kleyft að framkvæma.
Við ætlum að koma hlutunum í verk. X við M á kjördag.
Gunnar Bragi Sveinsson, skipar 2. sæti lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi
Hákon Hermannsson, skipar 4. sæti lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.