Sjávarútvegsfyrirtækin Oddi hf og Vestri hf hafa ritað bréf til Vesturbyggðar og skora á bæjarstjórn Vesturbyggðar að vinna að alefli að halda áfram að byggingu stórskipakants við innanverða Vatneyri.
Segir í bréfinu að núverandi höfn fullnægi ekki kröfum um öryggi hafna fyrir svo stór skip, né önnur stór skip sem þarfnast þjónustu hafnarinnar.
„Auk þess að slíkur hafnarkantur gæti þjónað stórum fiskiskipum, er ekki síður brýn þörf fyrir aðrar
tegundir skipa s.s. skemmtiferðaskipa sem hafa í auknum mæli leitað hér þjónustu og skilað góðum
tekjum. Einnig má nefna stór þjónustuskip fyrir fiskeldið og aðra starfssemi á svæðinu.“
Minnt er á umræðu hjá stjórnvöldum um strandsiglingar og nýjar hugmyndir um að Ameríkuskip Eimskips komi við á Vestfjörðum, áður en siglt er vestur um haf að taka lax, sem yrði mikilvægur þáttur með bættri hafnaraðstöðu á Patreksfirði.
Bæjarráð Vesturbyggðar bókaði að „Í síðustu tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 og fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2024-2028 er gert ráð stórskipakanti á Patreksfirði. Vesturbyggð gengur út frá því í sínum áætlunum að sú áætlun muni ganga eftir.“