Einn af fremstu hagyrðingum Vestfirðinga um þessar mundir er án efa Önfirðingurinn Jón Jens Kristjánsson, sem reyndar er búsettur í Borgarfirði.
Honum verður ýmislegt að yrkisefni og hér kemur kveðskapur hans um Sigmund Davíð og heimsókn hans í Verkmenntaskóla Akureyrar. Skólameistarinn vísaði Sigmundi út en hann svaraði fyrir sig með því að benda á að hún væri bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Lag: Ég skrifa þér með blýant.
Hann tússaði á húfur og teiknaði svo skegg
á tilfallandi plaköt á andlit manna og kvenna
hámaði í sig samloku og hékk nær skólavegg
svo hér var tæpast friður að læra eða kenna
en þetta voru fáránlegar ýkjusagnir og
ekki gerðist neitt sem að var á tæpu stigi
samt heyrast ennþá fréttir en þær hafa litla vog
haldlaust blaður, öðru nafni Samfylkingarlygi.