Vestfirðingar vita að orkuöryggi er ekki tryggt, hvorki til almennings né fyrirtækja í fjórðungnum. Það er oftar talað um vöntun á orkuöryggi fyrirtækja sem veikir samkeppnishæfni svæðisins, það er staðreynd en orkuöryggi almennings á Vestfjörðum er lykilatriði fyrir sjálfbæra þróun, öryggi íbúa og efnahagslega framvindu svæðisins.
Ekki sama Jón og séra Jón
Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Það þykir ennþá sjálfsögð skýring að kostnaður á dreifingu raforku sé meiri í dreifbýlinu þar sem viðskiptavinir búa. Að fjárfestingaþörf og endurnýjunarþarfir séu meiri í dreifbýli en þéttbýli og einnig átaksverkefni eins og þrífösun rafmagns. En hvaðan kemur rafmagnið? Jú! Úr sameiginlegri auðlind okkar allra. Við eigum að hafa jafnt aðgengi að raforkunni hvar á landinu sem við búum og heimili eiga að greiða sambærilegt og hagkvæmt verð fyrir þessi gæði.
Forgangur almennings og heimila
Nú fer í hönd tími ljóss og friðar. Þar til að heimskautið kalda snýr sér aftur að sólunni þurfum við bæði að kynda og lýsa upp heimilin. Orkuöryggi á Reykjanesskaganum er ógnað og óvissan er nokkur. Þegar þessi staða kemur upp verðum við að tryggja að heimilin gangi fyrir. Við þessu verður að bregðast, útfæra þarf neyðarhemla eða skyldu á orkufyrirtækin að selja til almennings. Þannig var staðan til 2003, að Landsvirkjun bar þessa ábyrgð. Bar þá ábyrgð að passa upp á að það væri alltaf til orka fyrir almenning í landinu, að aldrei væri selt of mikið til annarra, stórra notenda, á kostnað þessa hóps.
Forsoðnar kartöflur
Vestfirðingar eru þó komnir á þann stað að þurfa ekki að sjóða kartöflurnar á aðfangadagsmorgun til að létta á álaginu yfir miðjan daginn. Það er vegna þess að vel hefur gengið á Orkubúinu að bæta dreifikerfið en einnig vegna þess að varaaflstöðin sem sett var upp í Bolungarvík hefur staðið fyrir sínu, en henni var aldrei ætlað að vera annað en varaflsstöð.
Sólin rís og við fögnum
Vestfirðingar eru þessa dagana að njóta síðustu sólargeislanna og við bíðum spennt eftir að draga fram pönnukökupönnuna til að fagna henni aftur í janúar. Það vaknaði von og við fögnuðum þegar mikið af heitu vatni fannst við jarðhitaleit í Tungudal á Ísafirði í sumar. Það gefur von að það dugi til upphitunar húsa á Ísafirði og við verðum að halda áfram við leitina að heitu vatni á fleiri stöðum. Í samþykktri rammaáætlun eru tvær samþykktar vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum í nýtingarflokki. Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun. Unnið er að Kvíslártunguvirkjun í Steingrímsfirði sem kemst vonandi fljótlega í gagnið og mun stuðla að auknu raforkuöryggi á Ströndum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Áfram þarf að halda og það er líka nauðsynlegt að hraða styrkingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum.
Gleðilega ljósahátíð
Heimili og fyrirtæki um allt land ganga að raforku sem vísri nauðsynjavöru í nútímasamfélagi. Við treystum því að við getum lýst um skammdegið. Hér áður fylgdi það sláturtíðinni að birgja sig upp af varaafli, gasi, kertum og batteríum í útvarpið svo hægt væri að fylgjast með veðri og fréttum meðan olíufýringin í kjallaranum malaði í takt.
Framsókn leggur mikla áherslu á orkuöryggi um allt land. Flokkurinn vill hraða uppbyggingu á flutningskerfi raforku, sérstaklega á þeim svæðum sem búa við skert afhendingaröryggi. Markmiðið er að tryggja að allir landsmenn, óháð búsetu, hafi jafnan aðgang að raforku á hagkvæmu verði.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og í framboði til Alþingis
Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.