„Orkubú Vestfjarða byrjar að brenna olíu á morgun“

Þannig hljómaði fyrirsögn fréttar RÚV í janúar á þessu ári.  Í fréttinni kom fram að Orkubú Vestfjarða sá fram á að brenna um 3.4 milljónum lítra af olíu á þessu ári vegna skerðingar á raforku.  

Í fréttinni kom fram að Orkubúið ráðgerði að brenna olíu í 103 daga frá janúar fram í apríl á þessu ári. Bent hefur verið á að slík olíunotkun jafngildir ársnotkunar um 4000 bifreiða. 

Þessi umræða vekur augljóslega spurningar um stöðu og framtíð orkumála á Vestfjörðum. Þau ánægjulegu tíðindi bárust þó fyrr á árinu að heitt vatn hefði fundist í Tungudal. Þótt fundurinn gefi fögur fyrirheit mun taka fleiri ár að koma vatninu í notkun.

Takmarkaður skilningur 

Vestfirðingar standa frammi fyrir alvarlegum áskorunum í orkumálum vegna skerðingar á afhendingu raforku til rafkyntra hitaveitna. 

Í samræmi við samning við Landsvirkjun er skerðanleg orka ódýrari en forgangsorka, en þar sem staða uppistöðulóna er lág þarf að skerða afhendingu orku. Þetta hefur áður leitt til aukinnar olíunotkunar, en árið 2022 voru olíukatlar notaðir í 54 daga á Vestfjörðum en sú notkun hefur nú tvöfaldast.

Lítill skilningur virðist vera á þessari stöðu meðal þingmanna þeirra flokka sem hafa lagt sig fram við að tefja og hindra nauðsynlega orkuuppbyggingu á svæðinu og svo virðist sem fullkomin firring og skilningsleysi ríki á Alþingi um þessa stöðu.

Vatnsaflsvirkjanir sem langtímalausn

Til lengri tíma litið eru vatnsaflsvirkjanir klárlega besti kosturinn fyrir Vestfirði. Með aukinni eftirspurn og aukinni áherslu á afhendingaröryggi er ljóst að viðvarandi lausn felst í staðbundinni orkuvinnslu, en það dregur úr notkun á dísilknúnum varaaflsstöðvum og minnkar kostnað við rekstur hitaveitna. 

Fáir eru meðvitaðir um hversu háðir Vestfirðingar eru þessu varaafli. Varaafl af þessu tagi, dísilvélum og olíukötlum, nemur um 50 MW á Vestfjörðum í dag. 

Það er því brýnt að flýta virkjunarframkvæmdum til að stuðla að öruggari og grænni orkuöflun í samræmi við loftslagsmarkmið og gera vestfirskum heimilum og fyrirtækjum að taka þátt og njóta góðs af orkuskiptum.

Það vantar einfaldlega rafmagn í vestfirsk fyrirtæki. Rækjuverksmiðja á Ísafirði skoðar nú að hverfa aftur til olíunotkunar í rekstri sínum, svo dæmi sé nefnt. 

Staðan er samt sú að nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga langt í land.  Er þar um að ræða Hvalárvirkjun sem samþykkt var í 2. áfanga rammaáætlunar árið 2013 og Austurgilsvirkjun sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. 

Þegar litið er til stóraukinna orkuþarfar, afhendingaröryggis og nauðsyn stöðugleika raforkukerfisins er ljóst að nauðsynlegt er að taka ákvarðanir og framkvæma strax. 

Orkuauðlindir Vestfjarða eru til staðar, en skortur hefur verið á pólitískum vilja til að nýta þær.

Þeir einu sem geta breytt því eru kjósendur í komandi alþingiskosningum. 

Hugsum um orkumál og framtíð Vestfjarða í kjörklefanum þann 30. nóvember næstkomandi.

Halldór Halldórsson

forstjóri Íslenska kalkþör­unga­fé­lags­ins ehf. á Bíldudal

DEILA