Ísafjörður – Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Guðmundarbúð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Slysavarnadeildirnar á Ísafirði og í Hnífsdal munu standa fyrir minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa sunnudaginn 17 nóvember.
Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Dagurinn er fyrst og fremst tileinkaður minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á svefn og þreytu undir stýri.
Það sem af er þessu ári hafa 13 látist í umferðinni á Íslandi og enn fleiri hafa slasast alvarlega og takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum umferðarslysa.

Dagskrá á Ísafirði

Viðbragðsaðilar hittast kl 15:00 við Menntaskólann og aka í bílalest sem leið liggur inn að áhaldahúsi- Seljalandsveg – Bæjarbrekku í gegnum miðbæinn í átt að Guðmundarbúð.

Kl 15:15 Verður Minningarstund við Guðmundarbúð
Flutt verður erindi frá Ingibjörgu Elínu Magnúsdóttur, Ingibjörg starfar sem varðstjóri hjá Lögreglunni á Vestfjörðum ásamt því að vera félagi í Björgunarfélagi Ísafjarðar.
Mínútu þögn verður til að minnast fórnarlamba umferðarslysa.
Séra Magnús Erlingsson flytur hugvekju.
Viðstaddir kveikja á kertum.
Tæki viðbragðsaðila til sýnis.

Kl 15:45 Kaffi og vöfflur í boði Slysavarnadeilda í Guðmundarbúð.

DEILA