Mar­glytt­ur geta valdið tjóni hjá fisk­eld­is­fyr­ir­tækj­um

Brennihvelja

Grein sem birt var í vísindatímaritinu Aquaculture Environment Interactions nýlega, og sagt er frá á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar, sýnir fram á að marglyttur geti valdið fiskdauða og efnahagslegu tjóni hjá fiskeldisfyrirtækjum, jafnvel löngu eftir að marglytturnar eru farnar frá svæðinu.

Tilraunirnar voru gerðar í tilraunastöð HÍ í Sandgerði í eldistönkum, með örmum sem voru klipptir af brennihveljum sem var safnað í Eyjafirði síðsumars. Armarnir og þar með stingfrumurnar héldu fullri getu til að fanga saltvatnsrækjur Artemia salina í 24 daga, og geta því sært fisk í kvíum í þann tíma. Armarnir hættu síðan að geta veitt bráð frá 26. degi og síðar.

Eftir því sem næst verður komist eru þetta fyrstu vísindalegu vísbendingarnar sem sýna hversu lengi stingfrumur í gripörmum eru virkar eftir að þær slitna frá marglyttunum og þannig mögulega skaðað fisk í eldi.

Mikilvægt er að hafa þessar upplýsingar í huga við áhættumat og hönnun á viðbúnaði við marglyttum í kringum fiskeldi, segir í frétt á vefsíðu Hafrannsóknarstofnunar.

DEILA