Laxeldi : 900 störf – stefnir í 2.500 störf

Fram kom í erindi Hjartar Methúsalemssyni framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arnarlaxi á fundi Innviðafélags Vestfjarða á Patreksfirði á þriðjudaginn að nú starfa um 900 manns við fiskeldi á Vestfjörðum, í beinum og óbeinum störfum og gangi grunnspá Boston Consulting Group eftir um þróun fiskeldisins verða starfsmenn eldisins á Vestfjörðum orðnir 2.500 manns árið 2032. Á sama tíma myndu skattar og gjöld fiskeldisins fara úr 3 milljörðum króna upp í 20 milljarða króna. 

Grunnspá Bolston Consulting Group gerir ráð fyrir að laxeldið verði 146 þúsund tonn og miðað við það og útgefi leyfi er áætlað að framleiðslan á Vestfjörðum verði um 80 þúsund tonn á ári eftir 9 ár með söluverðmæti upp á 80 milljarða króna.

Hjörtur sagði að skipting milli beinna og óbeinna starfa væri líklega nokkuð jöfn þannig að um helmingur væri bein störf og annar helmingur óbein. Hann sagði að áætlaður fjöldi starfa við 80 þúsund tonna framleiðslu stemmdi nokkuð vel við tölur frá Færeyjum og eins væru bein störf við eldisfyrirtækin á Vestfjörðum nú í takt við þessar áætlanir.

Hjörtur sagði að skýr lagarammi og skýr stefna stjórnvalda væri lykilatriði í því að þessar áætlanir gangi eftir.

DEILA