Tveggja ára gömul hólkabrú yfir Þverá á Langadalsströnd rofnaði í síðustu viku í vaxtavöxtunum sem þá gengu yfir og flutu hólkarnir til sjávar og varð algerlega ófært yfir ána. Fyrir vikið lokaðist leiðin til laxeldisstöðvarinnar á Nauteyri og til þeirra sem búa i Skjaldfannardal.
Vegagerðin brást skjótt við og tókst fyrir helgina að gera fært yfir ána með braðabirgðaviðgerð. Gunnar Núni Hjartarson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Bæjarins besta að vonandi yrði hægt í næstu viku að lagfæra ræsin með varanlegri viðgerð. Sett verða hólkar af sömu stærð og fyrir voru en þeir verða grafnir dýpra , sem eykur flutningsgetuna í gegngum þá og sótt verður betra rofvarnarefni til að setja að þeim. Aðspurður sagði Gunnar Númi að það væri í raun steinar.
Vegagerðin hefur í nógu að snúast og er þessa dagana að lagfæra veginn við Eyri í Ísafirði. Í vatnsverðinu grófst undan veginum og þar þarf að grafa 12 metra niður til að komast að hólkunum sem þar eru í gegnum veginn. Viðgerðin mun taka nokkurn tíma.
Þverá er það vatnsfall á Vestfjörðum sem líklega er mest rannsakað og þar hafa verið rennslismælingar í um 70 ár. Kemur það til af hugmyndum um virkjun á hálendinum ofan Langadalsstrandar , sem enn eru til athugunar og heita nú Skúfnavatnavirkjun.
Gunnar Númi sagði að vatnsflóðið í síðustu viku í Þverá hefði verið svokallað 500 ára flóð, þ.e. talið væri að slíkt flóð kæmi á 500 ára fresti. Það segði sína sögu um hve óvenjulegt þetta væri.
Einn þeirra sem lenti í vandræðum vegna flóðsins var Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn. Hann fór á þriðjudaginn til Hólmavíkur og þegar hann ætlaði til baka var orðið ófært. Daginn eftir komst hann yfir á stórri beltagröfu og var sóttur af nágranna sínum hinum megin og komst þannig heim.
Indriði lýsti því svo þegar hann var á leiðinni til Hólmavíkur og kom að Þverá:
„Þegar að Þverá kemur er þar blikkandi vegagerðarbíll innan við hólkabrúna og efstu hólkarnir rísa eins og fallbyssur til skothríðar á fjallshlíðina líkt og alltaf er verið að sýna okkur í Úkraínu.En 2/3 vegbreiddarinar eru þó órofnir og þó áinn sé komin í óþekktan ham og væri enn að vaxa var það sameiginlegt álit mitt og vegagerðarmeistara að þetta myndi hanga uppi uns ég kæmi til baka.“
Það gekk ekki eftir og hólkarnir fóru sína leið til sjávar. Indriða þykir það hafa veri óráð að rífa gömlu brúna og fjarlægja hana þegar hólkarnir voru lagðir. Hún „var byggð 1944 og hafði ólöskuð staðið af sér þungafluttninga, flóðatoppa, krapa, jaka, og þrepahlaup í þröngum farvegi.“ og hann lýkur frásögn sinni með þessu:
„Það var hægur vandi og kosnaðarlítið að laga veginn við gömlu brúna svo farartæki kæmu beint á hana, báðum meginn frá, steypa nýtt burðarlag á gólfið leggja út eða endurnýja handriðinn og mála hana svo sem laun fyrir langa og dygga þjónustu og eiga til vara ef nývirkið bilaði. Nú er búið að hrófla upp einækri fyllingu ofan á þá hólka sem minst skemdust eða ekki, en milljónatuga endanleg endurnýjun, væntanlega með almennilegri grjótvörn og mikklu víðar vatnsvegi býður næsta sumars.“
Vegurinn var alveg í sundur.
Rörin fóru sína leið og flutu áleiðis til sjávar.
Myndir: Þórður Halldórsson.