Tilgangur laga og leikreglna sem settar hafa verið um landbúnað sem atvinnugrein kjarnast á þeim markmiðum að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem bestu samræmi við kjör annarra sambærilegra stétta. Í e. lið 2. gr. laga nr.70/1998, Búnaðarlög, kemur fram að markmið laganna séu meðal annars að stuðningur ríkisins stuðli að bættri afkomu bænda. Þá kemur fram í 2. og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 99/1993, Búvörulög, að virða skuli endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði.
Öflugt og framsækið atvinnulíf til sveita verður að grundvallast á heilbrigðum kjörum þess og þeirra sem það stunda. Má þar nefna að eðlilegt er að laun séu í takt við aðrar stéttir, vinnustundir til samræmis við aðra og boðlegt fæðingarorlof eru hluti af þeim kjörum. Þar þurfum við sem samfélag að gera betur því nauðsynlegt er að við komum á heilbrigðu starfsumhverfi í landbúnaði.
Bætt starfsumhverfi í landbúnaði
Það getur ekki talist eðlilegt starfsumhverfi þegar bændur þurfa, til að reyna að ná endum saman, að vinna meira en í 100% starfi, allan ársins hring auk þess að taka að sér önnur óskyld störf. Það er því miður raunveruleikinn og staða margra sem stunda landbúnað og kemur sú staðreynd niður á þeim sjálfum, fjölskyldu og einna helst börnum þeirra. Við verðum að spyrna við fótum og gera starfsumhverfi bænda heilbrigðara en nú er og til samræmis við aðrar stéttir, eins og mögulegt er. Þegar álagið eykst, vinnustundunum fjölgar og samvera fjölskyldunnar verður lítil sem engin eru auknar líkur á að það komi niður á geðheilbrigði viðkomandi. Við viljum koma í veg fyrir það með því að ráðast að rót vandans. Bætt afkoma er lykillinn. Tekjur í samræmi við aðrar sambærilegar stéttir myndu tryggja þeim meiri tíma í að sinna sínum búskap, meðal annars, með dýravelferðarsjónarmið að leiðarljósi og auka samverustundir með börnum og fjölskyldu.
Keðjuverkun, bætt afkoma-bætt geðheilbrigði
Styrkir til landbúnaðar tryggja öryggi í greininni og geta jafnframt tryggt örugga afkomu. Betri afkoma í landbúnaði, sem myndi tryggja bændum meðallaun, gæti haft margþætt áhrif. Í dag er atvinna bænda utan bús mjög algeng. Bætt afkoma af eigin rekstri bænda myndi draga úr þörf á atvinnu utan bús og auka þar af leiðandi atvinnuframboð í dreifbýli og ekki síður leitt til enn betri afurða, þó íslensk matvælaframleiðsla standi mjög framarlega í öllum samanburði, má alltaf gera betur en til þess þarf tíma og svigrúm. Einnig gætu ótal möguleikar í menningarlífi til sveita blómstrað ef tími gæfist til að sinna þeim. Það má því leiða líkur að því að betri afkoma bænda gæti haft keðjuverkandi áhrif og bætt samfélagið allt í sveitum landsins.
Sköpum svigrúm fyrir nýliðun
Áhyggjur okkar í dag beinast einkum að þeirri vá sem steðjar að íslenskum landbúnaði, ungir sem aldnir bændur eru að bugast undan álagi og jafnvel bregða búi. Þegar horft er fram á veginn sjáum við fram á talsverða fækkun í hópi bænda og það sorglega er að sú fækkun er ekki bara bundin við bændur sem eru að hætta vegna aldurs og engin sem taki við af þeim. Heldur er að heltast úr lest ungra bænda, mikið álag vegna lélegrar afkomu er þar stærsti þátturinn.
Það eru svo sannarlega tækifæri til staðar og staðanr er sú, ef okku rauðnast að skapa aðstæður til aukinnar nýliðunar, að spyrna við fótum. Gífurlegur fjöldi er af ungu og efnilegu fólki sem þráir ekkert heitara en að koma sér í búrekstur. Gerum þeim það kleift. Við viljum stuðla að því að ungt fólk hafi kost á að velja landbúnað, sem er einn af innviðum íslensks samfélags, sem sitt lifibrauð. Í nútímasamfélagi eru margar atvinnugreinar sem heilla ungt fólk og eru kjör og starfsumhverfi eitt af því sem litið er til þegar valinn er starfsframi. Með því að liðka fyrir og tryggja nýliðun í landbúnaði erum við samhliða að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar til lengri tíma.
Hvað ætlum við að gera?
Ágæti lesandi, Sjálfstæðisflokkurinn og við sem í framboði erum heitum því að við munum sjá til þess að skattaumhverfið verði einfalt og sanngjarnt til einföldunar á kynslóðaskiptum. Við leggjum meðal annars til að erfðafjárskattur verði lækkaður. Við gerum okkur grein fyrir því að nýliðun og framþróun innan landbúnaðarins krefst þolinmóðs fjármagns á sanngjörnum lánavöxtum sem við munum beita okkur fyrir að verði til staðar. Við munum einnig tryggja aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu með einfaldara niðurgreiðslukerfi og tækninýjungum. Þá mun aukin afkoma bænda byggjast á þeim grundvelli sem næst í samningaviðræðum við ríkið á komandi ári, við gerð nýrra búvörusamninga. Sjálfstæðisflokkurinn ber hag landbúnaðarins og hinna dreifðari byggða svo sannarlega fyrir brjósti, við samningaborðið sem og annarsstaðar.
X við D á kjördag styrkir stöðu okkar bænda, vertu með okkur í liði.
Ragnhildur Eva Jónsdóttir 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Sigurbjörg Ottesen 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi