Bjarni Benediktsson matvælaráðherra hefur samþykkt að ráðist verði í kortlagningu á gæðum ræktunarlands.
Markmið kortlagningarinnar er að gæði ræktunarlands verði kortlögð út frá bestu fáanlegu gögnum og nýtist þannig við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun til að tryggja megi m.a. fæðuöryggi.
Land verður flokkað í fjóra flokka í samræmi við útgefnar leiðbeiningar.
Megináhersla verður lögð á land sem skilgreint er í flokkana mjög gott ræktunarland og gott ræktunarland en land sem fellur í þessa flokka kann að vera undirstaða fæðuöryggis til lengri tíma litið. Byggt verður á fyrirliggjandi gögnum og eins og kostur er í samræmi við útgefnar leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands.
Afurð verkefnisins verður landupplýsingagrunnur sem sveitarfélög geta nýtt við flokkun á landbúnaðarlandi og stefnumörkun um nýtingu í skipulagsáætlunum í samræmi við lög.
Landupplýsingagrunnurinn verður í sameiginlegri umsjón Lands og skógar og Skipulagsstofnunar.