Klúbbur matreiðslumeistara hefur kynnt nýtt Kokkalandslið sem mun keppa á heimsmeistaramóti í nóvember 2026. Í tilkynningu segir að liðið muni hefja æfingar af fullum krafti í febrúar 2025. Það mun æfa aðra hverja viku og munu æfingakvöldverðir byrja í september 2025.
Liðið skipa þrettán kokkar auk fjögurra aðstoðarmanna. Snædís Jónsdóttir mun þjálfa liðið.
Þórir Erlingsson er forseti Klúbbs matreiðslumeistara. Hann segir í fréttatilkynningu: „Liðið er samsett af einstakri blöndu af reynslumiklum keppendum og fagmönnum sem eru að byrja sinn keppnisferil. Okkur hlakkar til vinnunnar framundan og erum bjartsýn á árangur á heimsmeistaramótinu“.
Bæjarins besta innti Þóri eftir því hvort kokkalandsliðið sem einbeitir sér að því að nota íslenskt hráefni, notaði eldislax framleiddan í sjókvíum hér a landi.
Eldislax framleiddur á Íslandi selst á háu verði á erlendum mörkuðum og fæst hærra verð fyrir laxinn en fyrir þorsk.
Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekun. Bæjarins besta mun halda áfram að kalla eftir svörum kokkalandsliðsins, sem notið hefur opinberra styrkja við þátttöku sína í keppnum erlendis.