Katrín S. Árnadóttir, fiðluleikari – in memoriam

           

Undirritaður er ekkert að fara í launkofa með það, að hann hefur aldrei á sinni lífsfæddri ævi kynnst öðrum eins skörungi og góðkvendi og mömmu hennar Kötu Siggu, Helgu sælu Þorsteinsdóttur, loflegrar minningar, frá Narfeyri á Skógarströnd. Skal því þó ekki neitað en fúslega viðurkennt í framhjáhlaupi að móðir Jakobs heitins Hallgrímsonar, Margrét sáluga Árnadóttir frá Látalæti í Landsveit (Múli núna) stóðst fyllilega samjöfnuð við hana. (Eru hér fleiri öflugar mæður ónefndar).   Heimili ofanskrifaðra kvenna beggja og eiginmanna þeirra Árna tónskálds Björnssonar í Hörgshlíð 10 og Hallgríms J.J. Jakobssonar söngkennara á Hjarðarhaga 24 stóðu árum saman opin krökkum sem voru að bera sig lösnum burðum að klimpra svolítið á hljóðfæri og bókstaflega, segi og skrifa, lögðu undir sig betristofur fólksins með óeirinni og glaummikilli nærveru svo á morgnana um helgar sem seinni partinn virka daga.  Skal ekki gleymt að taka fram og þakka heitum sefa að matlystugu ungviðinu var unninn svo voldugur beini að við liggur að fljótlegra væri að telja upp það sem ekki var fram borið en að tíunda þann mannfagnað í smurbrauði og heimabakstri sem lagður var á borð.  Ævinlega hvetjandi og með gleðibragði gegndu báðar þessar húsfreyjur þó ærnum skyldum fyrir utan húsverkin:  Helga mikilvirk saumakona og lagði nótt við dag en Margrét ósporlöt og glaðleg framreiðsludama á Hótel Borg.

            Einkennilegt, að blámóða minninganna skuli viðhalda fyrir innri eyrum okkar hljómgeisla stofutónlistar sem við vorum að hnauka á forðum.  Þannig dveljast með okkur sem bráðum erum komin á leiðarenda í síðasta áfanga jarðlífsins þeir geislar sem kviknuðu af  Strengjakvartett nr. 1 í e-moll  eftir tékkneska tónskáldið Bedrich Smetana og Klarínettu-kvintett Mozarts i A-dúr K. 581, þar sem Sigurður Steinþórsson blés í hljóðpípuna af list.  Cellóleikarinn lagði aftur augun og lét snörla í nefinu á sér. Og skal þá ekki gleymt Divertimento í D-dúr K.136 eftir Mozart sem Nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík æfði undir stjórn öðlingsins Björns Ólafssonar konsertmeistara.  Fyrstu fiðlurnar byrjuðu á glaðlegri laglínu; lágfiðlan spilaði brotinn þríhljóm í fjórða takti og fór ekki framhjá neinum en cellóröddin endurtók litla d-ið í áttundapörtum; þumalfingur vinstri handar uppi í grópinni en sleikifingri einarðlega stillt á sinn tón auðfinnanlegan í fjórðu stillingu á G-streng og frægasti guðfræðingur 20. aldar Karl Barth byrjaði hvern dag á því að hlusta á Mozart.        

            Guðlaugur heitinn Þjóðleikhússtjóri Rósinkrans sem var búinn þeim hyggindum sem í hag mega koma, hóf fyrir miðjan sjöunda áratug aldarinnar sem leið að hafa í seli frá óðalinu, glæsihúsi Guðjóns Samúelssonar við Hverfisgötu. Var þá upplokið litlum sal með sviði rétt steinsnar yfir götuna í land-norður af hinu virðulega musteri Thalíu og kallaður Lindarbær.  Það gladdi okkur æskulýðinn þegar Guðlaugur beiddi okkur halda þarna svolítinn konsert í nokkrar rennur og borgaði auk heldur peninga fyrir. 

Seinna lá leiðin í Sinfóníuhljómsveit Íslands, ævintýrið þaðan sem enginn kemur samur aftur. Gott er að endurminnast þessara daga. Myndin af Kötu Siggu lifir, brosmildri og kærri skólasystur.  Guð blessi minningu hennar og ástvinina alla.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA