Jólabingó Sjálfsbjargar í Bolungarvík verður á sunnudag

Jólabingó Sjálfsbjargar í Bolungarvík verður haldið sunnudaginn 1. desember kl. 13:00 í Félagsheimilinu í Bolungarvík.

Sjálfsbjörg Bolungarvík er félag fólks með fötlun í Bolungarvík. Hlutverk Sjálfsbjargar á landsvísu er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti fólks með fötlun og gæta réttinda og hagsmuna þess.

Sérstaklega skal unnið að því að tryggja hreyfihömluðum félagsmönnum sem öðrum aðgengi að mannvirkjum, umhverfi, menntun, atvinnu og upplýsingum.


Stjórn Sjálfsbjargar í Bolungarvík ákvað á síðasta fundi sínum þann 20. október síðastliðinn að allir þeir peningar sem aflað yrði á jólabingói ársins í ár muni renna óskiptir til leiktækjakaupa á Gamla Róló í Bolungarvík.

Þar verði megináherslan lögð á leiktæki sem aðgengileg eru öllum og að tryggt aðgengi fyrir alla verði að þeim. Verkefni er unnið í samvinnu við nýstofnuð félagasamtök foreldra í Bolungarvík sem nefnast Vinir Gamla Róló.

DEILA