Icelandic Wildlife Fund, IWF, sem nefnist íslenski náttúruverndarsjóðurinn á íslensku, stendur fyrir sýningu á myndinni Árnar þagna, sem fjallar um lokun nokkurra laxveiðiáa í Noregi í sumar fyrir stangveiði. Höfundur er Óskar Páll Sveinsson.
Í kynningu á myndinni segir að í myndinni séu „viðtöl við eigendur norskra laxáa, sem tekin voru nokkrum dögum eftir að fótunum var kippt undan tilveru þeirra, og fólk í sveitum Íslands um þá framtíð sem mögulega bíður þess og fjölskyldna þeirra.“
Farin verður hringferð um landið með viðkomu í öllum kjördæmum þar sem myndin verður sýnt og umræður á eftir með frambjóðendum til Alþingis og kjósendum á hverjum stað. Þá segir að „Gríðarlega mikilvægt er að íbúar um allt land átti sig á því sem er í húfi, hvaða leiðir er verið að skoða í Noregi til að vinda ofan af skaðanum þar og hvað þarf til að forða því að eins fari hér.“
Á Facebooksíðu samtakanna segir í umsögn:
,,Sá myndina í Borgarnesi í síðustu viku. Það er skylda okkar sem þjóðar að koma í veg fyrir þá ógn sem sem sjóeldi getur valdið. Norðmenn vona að við gerum ekki sömu mistökin og þeir.
Það ætti að vera stefna allra stjórnmálaflokka að sjóeldi heyri sögunni til innan fárra ára t.d. 2030. Atvinnu rekstur á Vestfjörðum á ekki að ógna öðrum búgreinum s.s. stangveiði og ferðaþjónustu í Húnavatnssýslum, Dölum og Borgarfirði. Myndi halda að það væri í stjórnarskránni.“
Svar ritstjóra IWF Jóns Kaldals er skýrt: „Takk Ragnar Frank Kristjánsson þetta er málið í hnotskurn.“