Íslenska ríkið sýknað í Hæstarétti af kröfu Reykjavíkurborgar

Íslenska ríkið var sýknað í Hæstarétti í gær af kröfu Reykjavíkurborgar í máli sem borgin höfðaði vegna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til reksturs grunnskóla og vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál á tímabilinu 2015-2019.

Með niðurstöðu sinni sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir tæpu ári síðan.

Um þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra:

„Það er ánægjulegt að málið hafi verið leitt til lykta fyrir dómstólum. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við að jafna stöðu sveitarfélaga, sem búa við ólíkar aðstæður vegna stærðar, staðsetningar og íbúasamsetningar.

Framlög Jöfnunarsjóðs eru ein  grunnforsenda þess að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa.

Allri óvissu um þetta kjarnahlutverk Jöfnunarsjóðs er eytt með dómi Hæstaréttar,“

Forsaga málsins er sú að ríkið og sveitarfélög gerðu með sér samkomulag um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskóla árið 1996. Í niðurstöðukafla Hæstaréttar er vísað til þess að ein forsenda við flutninginn hafi verið að Reykjavíkurborg gæti fjármagnað rekstur grunnskóla sinna með hækkun útsvars. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var á hinn bóginn veitt heimild með breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að úthluta framlögum til annarra sveitarfélaga til að jafna kostnað þeirra vegna reksturs grunnskóla. Reglugerð um úthlutun framlaganna var sett á grundvelli þeirra laga.

 

DEILA