Ísafjörður: sumarviðburðasjóður verði 20 m.kr. á næsta ári

Frá einum sumarviðburðinum á Silfurtorgi í sumar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að útvíkka hlutverk sumaviðburðasjóðs og fjórfalda fjárhæðina sem sjóðurinn hefur úr að spila og gerir ráð fyrir 20 m.kr. á næsta ári.

Hafnarstjórnin telur að góð reynsla hafi verið í sumar af sjóðnum.

Í samantekt Vestfjarðastofu kemur fram að sjóðurinn úthlutaði 12 aðilum samtals 5 m.kr. til viðburða á Ísafirði í tengslum við skemmtiferðaskipakomur þar sem áhersla var lögð á að efla menningu og mannlíf.

Segir í samantektinni að mikil ánægða hafi verið með styrkina og töldu flestir styrkþegar að án styrksins hefðu þessi verkefni líklega ekki verið framkvæmd. Mismunandi var hve mikill fjöldi var á hverjum viðburði og svo virtist vera að fólk safnaðist mest í kringum viðburði sem voru á Silfurtorgi.

Ennfremur segir að viðburðirnir hafi skapað líf í bæinn og „hvort sem gestir kæmu af skemmtiferðaskipum eða aðrir gestir þá virtist vera mikil ánægja meðal þeirra. Einnig má heyra á bæjarbúum að framtakið hafi mælst sérlega vel fyrir hjá þeim líka og margir haft orð á hversu skemmtilegt það var að hafa svona auðugt og aðgengilegt menningarlíf í bænum.“

DEILA