Ísafjarðarbær er einn of fárra bæja sem komið hafa sér upp málstefnu. Hér er málstefnu Ísafjarðarbæjar að finna. Flott að komin er málstefna. Gott skref. En mér virðist sem hugur fylgi ekki endilega máli. Ætla ég að taka til eitt nýlegt dæmi. Þau eru vissulega fleiri og hefi ég raunar áður bent bæjaryfirvöldum á brotalamir sem snúa að lögum frá 2011 og segja til um að „ríki og sveitarfélög skuli tryggja að unnt verði að nota íslensku á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ (2. gr.) og „ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skuli sjá til þess að hún sé notuð.“ (5. gr.) Það er sannlega vafamál hvort bærinn hafi þar staðið sig sem skyldi. Í málstefnu Ísafjarðarbæjar segir svo: „[s]tarfsfólk skal nota vandaða íslensku í samskiptum og þjónustu, eftir bestu getu.“ Ég held það sé augljóst að þar sé málstefnu ekki fylgt til hlítar þegar ætlast er til þess af dóttur minni, átta ára, að hún tali ensku þegar hún innir eftir afar einföldum hlut í Sundhöll Ísafjarðar. Hún spurði eftir sundbol sem hafði gleymst eitt sinnið. Augljóslega er hér ekki fylgt eftir þessum hluta málstefnunnar: „Ísafjarðarbær skapar starfsfólki sínu skilyrði til að bæta íslenskukunnáttu sína með símenntun til að málfar og málnotkun í skriflegum sem munnlegum samskiptum geti verið til fyrirmyndar.“ Væri sú raunin hefði hlutaðeigandi starfsmaður ekki farið þess á leit að töluð yrði enska. Og sjálfur hefi ég oft rekið mig á að íslenskukunnátta er hreinlega ekki til staðar, ekki í neinum mæli bæði í Sundhöllinni og t.a.m. á skíðasvæðunum.
Langar mig til að varpa þeirri spurningu til Ísafjarðarbæjar, kannski einkum til bæjarstjóra og oddvita Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, hvort ekki standi til að gera betur í þessum efnum? Alltént má ljóst þykja að þetta samræmist hvorki lögum frá 2011 né málstefnu bæjarins. Já, má ekki gera betur? Og vel að merkja er ekki farið fram á að viðkomandi ráði við annað en þá íslensku sem lýtur að starfi viðkomandi. Það er ekki svo erfitt að miðla slíkum orðaforða og æfa. Það er ekki erfitt að skapa grunn til að byggja á. Það get ég fullyrt í ljósi áralangrar reynslu sem kennari íslensku sem erlends máls svo og annars máls. Já, auðvitað verður að hafa eitthvað til að byggja á og nei, app eins og Bara tala dugir þar ekki til. Svo er gott að leggja áherslu á að Ísafjarðarbær ber ábyrgðina ekki starfsfólkið, bærinn á að sjá til þess að kunnáttan sé til staðar og miðla málinu til þeirra sem ekki hafa það að móðurmáli.
Með vinsemd og virðingu.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson,
verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag