Ísafjarðarbær: hafnarsjóður ber uppi bætta afkomu

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir næsta árs til seinni umræðu og fer hún fram í næsta mánuði. Heildarniðurstaða af rekstri sveitarfélagsins batnar milli ára samkvæmt áætluninni og verður afgangur 820 m.kr. en var 452 m.kr. í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs 2024.

Tekjur eru áætlaðar verða 8,3 milljarðar króna á næsta ári. Útsvar er stærsti tekjuliðurinn 3,3 milljarðar króna og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2,2 milljarðar króna. Þjónustutekjur eru taldar verða 1,5 milljarður króna og hækka um fjórðung milli ára. Fasteignaskattar skila 669 m.kr. á næsta ári.

Rekstrargjöldin verða 7,3 milljarðar króna á næsta ári. Launakostnaður er langstærsti liðurinn og verður 4 milljarðar króna. Næststærsti liðurinn eru þjónustukaup og verður 1.268 m.kr. Fjármagnskostnaður er áætlaður 314 m.kr. á næsta ári en 75 m.kr. eru ætlaðar tekjur af sölu eigna.

Tekjur B hluta stofnana verða 1,5 milljarðar króna og þar eru tekjur hafnasjóðs langmestar eða nærri 1.066 m.kr. Athygli vekur að afgangur af rekstri hafnanna er nærri helmingur teknanna og eru áætlaðar verða 491 m.kr. Tekjur af komu skemmtiferðaskipa er uppistaðan í þessar bættu afkomu hafnanna og þar með Ísafjarðarbæjar á síðustu árum.

Yfirlit úr greinargerð með fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025.

DEILA