Hafnaframkvæmdir í Ísafjarðarbæ á þessu ári kosta 417 m.kr. samkvæmt yfirliti fyrir fyrstu mánuði ársins sem lagt hefur verið fram. Er það aðeins meira en áætlunin gerði ráð fyrir, sem var 402 m.kr.
Kostnaður við dýpkun hefur orðið meiri en áætlað var eða um 7,5 m.kr. á tímabilinu og er dýpkunarframkvæmdum ekki lokið og fer það eftir því hvort skip fæst á svæðið hvort frekari dýpkun verður gerð á árinu.
Kostnaður við rútubílastæði hafnarinnar og gatnaframkvæmd við Kríutanga og Hrafnatanga var áætluð 70 m.kr. en kostnaður á tímabilinu er um 95 m.kr. Ekki liggur þó fyrir að fullu skipting þess kostnaðar við fráveitu og vatnsveitu og getur því þessi fjárhæð lækkað í árslok þegar sú skipting liggur fyrir. Eitthvað á eftir að rukka af framlögum frá Hafnarbótasjóði sem mun lækka hlut hafnarinnar í kostnaði framkvæmda. Væntingar eru því um að áætlunin gangi eftir segir í yfirlitinu.