Kvenfélagið Hvöt heldur sinn árlega markað í félagsheimilinu Hnífsdal nk laugardag 23. og sunnudag 24. nóvember frá kl 14 til 17 báða daga.
Eins og kvenfélagskonum er einum lagið verður hið margrómaða hnallþóruborð sérlega glæsilegt í ár, ásamt öðru heimatilbúnu góðgæti. Sherrysíldin víðfræga verður einnig til sölu eins og alltaf. Og hægt verður að grípa með henni heimabakað rúgbrauð meðan birgðir endast.
Á kolaportinu verður hægt að gera frábær kaup, því ekki mun skorta úrvalið af notuðum fatnaði, skóm, húsbúnaði, jólaskrauti og leikföngum svo eitthvað sé nefnt. Notaði varningurinn verður að sjálfsögðu seldur á slikk. Því á kolaporti er engin verðbólga.
Kvenfélagskonur munu einnig vera með kaffihús á staðnum en þar verður notarlegt að tilla sér niður og kaupa heitt súkkulaði og nýbakaðar vöfflur.
Þetta er stærsta fjáröflun kvenfélagsins Hvatar og rennur allur ágóði til góðgerðarmála.