Gefa 70 m.kr. til minningar um Jón Sigurpálsson

Forsvarsfólk Skógar tilkynntu um gjöfina á opnun sýningarinnar Vitar sem sett var upp í Bryggjusal í sumar. Mynd: Edinborgarhúsið.

Menningarhúsinu Edinborg hefur borist höfðingleg gjöf frá hlutafélaginu Skógi ehf. Félagið er í eigu hjónanna Önnu Kristínar Ásgeirsdóttur og Gísla Jóns Hjaltasonar. Gjöfin er að upphæð 70 milljónir króna og er gefin í minningu Jóns Sigurpálssonar sem lést á síðastliðnu ári, en hefði orðið sjötugur þann 2. ágúst síðastliðinn. Jón var að öðrum ólöstuðum helsti hvatamaður og driffjöður í uppbyggingu hússins og gegndi formennsku í stjórn þess lengst af.

Fjármunir þessir munu verða nýttir, samhliða framlagi ríkis og bæjar, til eflingar starfsemi menningarhússins.

Frá þessu er greint á vefsíðu Edinborgarhússins.

10 m.kr. rekstrarstyrkur frá ráðuneyti

Menningarhúsið Edinborg hefur jafnframt gert samning um rekstrarstyrk við menningar- og viðskiptaráðuneytið til næstu tveggja ára. Samningur þessi miðar að því að Edinborgarhúsið geti staðið undir öflugu menningarlífi og tryggir hann húsinu fjármuni að upphæð 10 milljónir hvort ár.

Edinborgarhúsið er menningarhús Vestfjarða og vettvangur fjölbreyttrar menningarstarfsemi. Það þjónar norðanverðum Vestfjörðum og fjórðungnum öllum eftir því sem samgöngur leyfa. Auk þess að hýsa listaskóla, leikklúbb og gallerí eru stöðugt haldnir fjölbreyttir menningarviðburðir í húsinu allt árið um kring.

Stjórn og aðstandendur Edinborgarhússins þakka fyrrgreindum aðilum stuðninginn og hafa þegar hafið vinnu við nýja stefnumótun og endurskipulagningu starfsemi menningarhússins í ljósi ofangreinds.

DEILA