Fundur Innviðafélagsins: almennur stuðningur við sérstakan samgöngusáttmála fyrir Vestfirði í næsta stjórnarsáttmála

Alþýðuhúsið á Ísafirði var þéttsetið.

Innviðafélag Vestfjarða stóð fyrir í gær almennum fundi á Ísafirði um samgöngur á Vestfjörðum, samgöngubætur, samgönguáætlun, og þær hugmyndir sem fram hafa komið hjá Innviðafélagi Vestfjarða um sérstakan samgöngusáttmála – Vestfjarðalínu. Til fundarins voru boðnir oddvitar framboða í Norðvesturkjördæmi.

Guðmundur Fertam Sigurjónsson, forstjóri Kerecis setti fundinn og flutti inngang fyrir hönd Innviðafélagsins.

Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsins Þjóðmála, og Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Spursmála Morgunblaðsins, stýrðu umræðum. Fundurinn var í beinni útsendingu á risa skjá á Skútanum á Patreksfirði og á Vegamótum á Bíldudal. Alþýðuhúsið á Ísafirði var þéttsetið og mikill áhuga var á fundarefninu.

Fram kom hjá fulltrúum flokkanna almennur stuðningur við það að sérstakur samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði yrði í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri spurði frambjóðendur að því hvort þeir styddu að allt auðlindagjald, sem innheimt er af fiskeldi rynni til að fjármagna innviðasáttmála næstu ríkisstjórnar.

Almennt voru svörin á þá lund að frambjóðendur studdu að aukinn hlutur gjaldsins yrði til framkvæmda heima í héraði en blæbrigðamunur var á því hversu stór sá hlutur ætti að vera.

Halla Signý Kristjánsdóttir,alþm. (B) sagði að síðustu 7 ár hafi undir forystu Framsóknarflokksins verið varið um 30 milljörðum króna til samgönguframkvæmda á Vestfjörðum og ásetningur flokksins væri nú að ná samstöðu um að heimila í komandi fjárlögum fyrir 2025 útboð á lokaframkvæmdum á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit.

Eyjólfur Ármannsson, alþm. sagði að staða innviða á Vestfjörðum hamlaði aukinni verðmætasköpun á Vestfjörðum, en hann og Guðmundur Hrafn Arngrímsson (J) gerðu athugasemd við gjaldtökuhugmyndir tengdum jarðgangaframkvæmdum. Sigríður Gísladóttir (V) og Ólafur Adolfsson (D) fögnuðu framtaki Innviðafélagsins og sagði Sigríður það koma okkur út úr kjördæmapotinu.

Álftafjarðargöng næst

Stjórnendur fundarins báðu frambjóðendur að raða jarðgangakostunum á Vestfjörðum. Athyglisvert var að níu af tíu frambjóðendunum sögðu að Álftafjarðargöng milli Ísafjarðar og Súðavíkur ættu að vera næst. Aðeins fulltrúi Miðflokksins gaf ekki upp röðun að sinni. Rökin sem oftast voru gefin fyrir valinu voru þau að mest hætta væri fyrir vegfarendur á þeirri leið. Síðan skiptist nokkuð í tvö horn hvaða göng voru nefnd í öðru sæti. Nokkrir nefndu Klettsháls en aðrir nefndu Hálfdán og Mikladal saman.

Guðmundur Fertam Sigurjónsson setur fundinn. Á myndinni eru einnig Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri frá Samfylkingunni og Eldur Smári Kristinsson, Lýðræðisflokknum.

Ingibjörg Davíðsdóttir Miðflokki, María Rut Kristinsdóttir Viðreisn, Ólafur Adolfsson Sjálfstæðisflokki og Sigríður Gísladóttir, Vinstri grænum.

Eyjólfur Ármannsson Flokki Fólksins, Guðmundur Hrafn Arngrímsson Sósíalistaflokknum og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki.

Fundarmenn voru duglegir að bera fram fyrirspurnir og hér er Jónas Guðmundsson forsvarsmaður Samgöngufélagsins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson og Davíð Stefánsson.

DEILA