Framkvæmdir við nýja skólabyggingu á Bíldudal að hefjast

Næsta föstu­dag kl. 11:00 verður tekin fyrsta skóflu­stungan að nýjum Bíldu­dals­skóla.

Nýr Bíldudalsskóli verður samrekinn leik- og grunnskóli ásamt frístund.

Nýbyggingin verður reist með það fyrir augum að nýtast á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Um ræðir áfanga eitt þar sem framtíðaráform eru um að byggja við skólann samhliða aukningu nemenda.

Arkitekt er Ástríður Birna Árnadóttir, hún starfar hjá Arkibygg sem er aðal ráðgjafi Vesturbyggðar við verkið.

Verktaki verður Arctic North ehf. Gert er ráð fyrir að innivinna og vinna í lóð við húsið muni fara fram síðsumars 2025 en vonir standa til að húsnæðið verði tilbúið fyrir skólastarf haustið 2025.

Aðkoma að skólanum verður frá Hafnarbraut norðan megin við skólann, byggingin verður á einni hæð með aukinni lofthæð í miðrýminu. Skólinn verður vel staðsettur miðsvæðis í bænum, á sólríku svæði með gott útsýni yfir fjörðinn og tengingu við fjöruna. Lóðin liggur við íþróttahúsið Byltu, sem gefur nemendum greiðan aðgang að íþróttahúsinu.

Við hönnun hússins var það haft að leiðarljósi að samnýta rými þvert á skólastig hvað varðar verk- og listgreinar, sérkennslu, eldhús/mötuneyti og starfsmannaaðstöðu, einnig er gert ráð fyrir rými fyrir tónlistarkennslu. Umferðarleið sem liggur í gegnum alla bygginguna tengir flest öll rými saman, þar verður komið fyrir setsvæðum og hirslum meðal annars fyrir bækur.

Í fjölnotasal/frístund er gert ráð fyrir góðum hirslum sem þjóna breytingu á rýminu eftir þörfum í kennslu í list- og verkgreinum. Hægt er að skipta upp rýminu á auðveldan hátt en það nýtist einnig sem stærri salur fyrir samkomur. Gert er ráð fyrir að eldhús sé upphitunareldhús sem hægt er að breyta í framleiðslueldhús ef þörf krefur seinna meir.

DEILA