Heilbrigðisráðuneytið hefur birt skýrslu með uppfærðri stöðu framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma til ársins 2028. Á framkvæmdaáætluninni eru alls 934 rými, þar af fjölgun rýma um 724, en bætt aðstaða í 210 rýmum.
Heildarfjöldi hjúkrunarrýma á landinu í september 2024 er 2.987 rými, bæði almenn og sérhæfð en þar að auki eru 113 dvalarrými. Það gerir 225 hjúkrunarrými á hverja 1000 íbúa 80 ára og eldri. Nauðsynlegt er að halda áfram uppbyggingu hjúkrunarheimila í ljósi fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra á næstu árum og áratugum. Fjöldi íbúa 80 ára og eldri mun tæplega tvöfaldast fram til 2040.
Á Vestfjörðum er meðalbiðtími eftir rými 134 dagar sem er nánast það sama og meðalbiðtími á landinu, en hins vegar hafa 65% íbúa á Vestfjörðum beðið í 170 daga eftir rými sem er það lengsta á landinu.
Meðalkostnaður við byggingu hvers hjúkrunarrýmis, miðað við 60 rýma heimili á verðlagi í ársbyrjun 2024, er áætlaður rúmlega 65 m.kr. Kostnaður við endurbætur á rými hefur að jafnaði verið áætlaður um 75% af þessum kostnaði.
Þá er kostnaður við búnaðarkaup, miðað við verðlag í nóvember 2024, áætlaður um 3,3 m.kr. á hvert rými.
Rekstur meðalhjúkrunarrýmis án húsnæðisgjalds var 17,2 m.kr. árið 2023 og 18,3 m.kr. árið 2024.