Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri í Dalabyggð og annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sagði á fundi sem Icelandic Wildlife Fund stóð fyrir í Borgarnesi í síðustu viku að laxeldið væri á skilorði.
Bæjarins besta óskaði eftir því að Björn Bjarki skýrði ummæli sín. Hann sagðist hafa verið að vísa til ummæla aðila í greininni sem væru að vísa til slysasleppinganna sem urðu i fyrra.
„Þegar ég notaði hugtakið skilorð á fundinum [á fimmtudaginn] var ég að vísa til samtala sem við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins áttum við forsvarsfólk fyrtækja í greininni á góðri ferð okkar um Vestfirði í síðustu viku. Í þeim samtölum kom m.a. fram að það er skilningur á því meðal aðila í greininni að það er ekki til staðar umburðarlyndi gagnvart frekari atburðum í líkingu við þann sem var sl. haust í þeim landshlutum þar sem laxveiði er stunduð. Þar eru miklir hagsmunir í húfi gagnvart verndun villta laxastofnsins og einn aðili sagði í þeim samtölum sem ég vísa til hér að framan að þeir áttuðu sig á því að greinin væri á einskonar skilorði [gagnvart áliti almennings]. Þetta leyfði ég mér að nota á fundinum [á fimmtudaginn] til að upplýsa fundargesti um það að greinin tekur því ekki af léttúð að slysaslepping hafi átt sér stað. Umræður á fundinum í gær voru hreinskiptar og hollt að taka samtalið.“
Uppfært kl 10:50. Áréttuð tilvísun í ummæli aðila í laxeldinu.