Forsætisráðherra: mikil verðmætasköpun í laxeldinu

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra hélt opinn fund á Logni í Hótel Ísafirði á mánudagskvöldið. Gríðarmikil aðsókn var og var fundarsalurinn þéttsetinn. Um 100 manns voru á fundinum. Er þetta fjölmennasti stjórnmálafundurinn á Vestfjörðum í þessari kosningabaráttu.

Í framsöguræðu sinni vék Bjarni að breytingunni, sem hafi orðið á Vestfjörðum frá því hann kom vestur árið 2009 í aðdraganda þess að hann var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins, og því sem nú blasti við. Nýjar atvinnugreinar hafi komið til með mikilli verðmætasköpun fyrir land og þjóð, fjölgun starfa og auknar tekjur. Nefndi Bjarni sérstaklega fiskeldið og Kerecis og sagði um Kerecis að einstakt væri að eitt verðmætasta fyrirtæki landsins væri á Ísafirði.

Sagðist Bjarni fá þau skilaboð frá Vestfirðingum að stjórnmálamenn ættu að láta kerfið virka og leyfa mönnum að framleiða verðmæti til hagsbóta fyrir landsmenn og átti þar við laxeldið.

Verjum Reykjavíkurflugvöll

Forsætisráðherra lagði ríka áherslu á að mikilvægt væri að halda Reykjavíkurflugvelli og það skipti miklu máli. Hann fagnaði því að ákveðið hafi verið við afgreiðslu fjárlaga að klára Dynjandisheiði og nýjan veg um Gufudalssveit.

Þá vék Bjarni að orkumálum og sagði ljóst að það vantaði meiri orku inn á svæðið og það væri galið að brenna 3,4 milljónum lítra af olíu. Það ætti að nýta þau tækifæri sem væru til staðar til þess að virkja. Sagði hann það leiðinlegt að ekki væri ráðist í Vatnsdalsvirkjun, það væri virkjunarkostur með lítil umhverfisrask en mikinn ávinning fyrir Vestfirðinga.

Að lokinni framsöguræðu forsætisráðherra báru fundarmenn fram fyrirspurnir og voru þær fjölmargar og snertu flestar vestfirska hagsmuni. Meðal annars var ítarlega spurt um skattlagningu á laxeldisfyrirtæki og bent á að hún væri nú þegar hærri en í Noregi og í Færeyjum.

Forsætisráðherra svarar fyrirspurnum. Fundarstjórar voru Daníel Jakobsson og Hafdís Gunnarsdóttir.

Myndir: aðsendar.

Geirþrúður Charlesdóttir var að sjálfsögðu mætt og lét að sér kveða á fundinum.

DEILA