Lambakjötsframleiðsla heldur áfram að dragast saman milli ára.
Í liðinni sláturtíð komu rúmlega 13 þúsund færri lömb til slátrunar miðað við árið á undan. Það er samdráttur sem nemur um 340 tonnum.
Þetta kemur fram í Bændablaðinu sem kom út í síðustu viku og þar er sagt að alls hafi 404.672 lömbum verið slátrað í haust en 418.202 í fyrrahaust. Ef horft er til ársins 2021 er fækkunin um 60 þúsund lömb.
Á árinu 2017 komu 560.465 lömb til slátrunar, rúmlega 543 þúsund árið 2018 og tæplega 507 þúsund árið 2019.
Meðalvigt hefur aukist nokkuð á síðustu árum og vegur það að einhverju leyti upp á móti fækkun sláturgripa.