Stutta svarið er já og það liggur í nafni flokksins, bændur vilja vera sjálfstæðir.
Lengra svarið fylgir hér á eftir.
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður utan um sjálfstæði landsins. Grunngildi hans er trúin á einstaklinginn og þau miklu auðævi sem eru fólgin í mannshuganum þegar honum eru ekki settar ósanngjarnar skorður af hálfu óskilgreindra yfirvalda.
Hvað landbúnað varðar þá hefur það alltaf verið eitt af helstu stefnumálum flokksins að gera veg landbúnaðar sem mestan, sem ágætlega má sjá í landsfundarályktun frá árinu 2022 sem fylgir hér:
“Hverri þjóð er mikilvægt að vera sjálfbær um matvöru eftir því sem kostur er. Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða og byggðafestu í landinu. Öflugur landbúnaður er hornsteinn góðs þjónustustigs um allt land. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og neytenda. Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Gæta þarf þess að reglugerðir innleiddar í gegnum EES séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum. Íslenskur landbúnaður er í daglegri samkeppni við erlendan landbúnað. Atvinnugreinin þarf að hafa frelsi til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum neytenda og bænda. Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum ný tækifæri innanlands og erlendis.”
Stundum er talað um að það sé ákveðin þversögn fólgin í því að stjórnmálaflokkur sem skilgreinir sig sem frjálslyndan íhaldsflokk geti verið hlynntur landbúnaði. Það er hins vegar, þegar nánar er að gáð, engin þversögn fólgin í því þar sem að við styðjum nýjar hugmyndir (frjálslyndi) að vel ígrunduðu máli (íhald).
Við styðjum hugmyndir sem auka við virði þeirra afurða sem við getum framleitt hér á landi. Við vitum nefnilega að þær afurðir sem framleiddar eru hér á landi eru framleiddar með bæði dýra- og mannavelferð í fyrirrúmi. Við þurfum hins vegar að gera meiri verðmæti úr þeim afurðum sem bændurnir okkar framleiða, til að þeir nái að teygja sig upp í það launastig sem kallast meðallaun í dag. Við bændur erum ekki komin þangað enn en við erum á leiðinni þangað. Þetta verður best tryggt með frjálslyndinu.
Við styðjum svo íhaldið að því leyti að okkur finnst engan veginn sanngjarnt íslenskum bændum að þær vörur sem við keppum við í alþjóðasamhengi lúti ekki sömu kröfum og við eigum við að etja. Þar má til að mynda benda á hversu miklum mun minni sýklalyf eru notuð í landbúnaði á Íslandi, samanborið við önnur lönd. Þar kemur íhaldið inn, við viljum ekki missa þá sérstöðu.
Við viljum alls ekki slá af þeim kröfum sem okkur eru gerðar hvað varðar velferð búfjár og/eða fólks. Við viljum að innfluttar vörur séu framleiddar við jafn góðar aðstæður og eru til staðar hér á landi, bæði hvað varðar fólk og fé.
Bændur eiga að fá greitt fyrir sitt starf eftir verðleikum. Bændur eiga ekki að fá greitt fyrir sitt starf eftir því hvort hægt er að finna ódýrari samkeppnisvöru í öðru landi, sérlega þegar sú vara á það til að standast hvorki manna-né dýravelferð þá sem er sem betur fer viðhöfð hér á landi.
Bændur eiga að uppskera það sem þeir yrkja. Það er Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn og þess vegna eigum við bændur heimili í Sjálfstæðisflokknum.
Ragnhildur Eva Jónsdóttir
Sigurbjörg Ottesen
Höfundar eru bændur og eru í 6. sæti og 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.