Það er búið að vera óendanlega gefandi vegferð að ferðast um Norðvesturkjördæmi síðastliðnar vikur. Það hefur verið magnað að heimsækja ykkur mörg og fylgjast með uppgangi nýsköpunar, frumkvöðlastarfs og vaxtar í bland við sterka og rótgróna atvinnuvegi um allt kjördæmið. Vænst þykir mér um öll samtölin við ykkur með kaffibolla við hönd. Þar sem þið hafið treyst mér fyrir ykkar hugmyndum um framtíðina en líka ykkar ótta og óöryggi. Það er augljós gróska í kjördæminu, sem er stútfullt af tækifærum – birtu og von. Eftir áratugi af fólksfækkun á sumum svæðum virðist dæmið loksins vera að snúast við. En á sumum stöðum skynja ég ríkan ótta við að verða skilin eftir. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja sterkar undirstöður – sterka innviði, fjölbreyttari tækifæri og byggja undir von um bjarta framtíð.
Hjartsláttur samfélaganna
Ég hef á þessum stutta tíma lagt mig alla fram um að skilja og skynja hjartsláttinn í hverjum landshluta fyrir sig. Það eru sannarlega ólík samtöl sem eiga sér stað milli ólíkra svæða og ólíkir hagsmunir sem brenna á fólki. En það er líka margt sem sameinar. Þegar kemur að bagalegri stöðu vegamála, orkumála og heilbrigðismála eru íbúar allra landshluta sammála um að þar hafi þeir verið skildir eftir. Þeir upplifa óöryggi og óréttlæti. Í öllum landshlutum hef ég rætt við kennara, heilbrigðisstarfsfólk og lögreglumenn sem upplifa skilningsleysi á stöðu sinni. Í öllum landshlutum hef ég hitt ungt fjölskyldufólk sem talar um lífsgæðin sem fylgja því að ala upp börn í frelsinu en því finnst stundum vanta skilning á þeirra stöðu þegar það kemur að nauðsynlegri grunnþjónustu sem og háan ferða- og flutningskostnað. Í kjördæminu eru stór bændasamfélög – þar skynja ég sterkt ákall um bætta afkomu og að þeirra framtíð sé tryggð. Á öðrum svæðum er mikið rætt um háan húshitunarkostnað, fábreytt atvinnutækifæri og dýra matarkörfu – eða fábreytt vöruúrval. Það ræða allir háa vexti og verðbólgu og áhyggjur af andlegri líðan fólksins okkar.
En sterkast finn ég fyrir því að íbúar allra landshluta segja það mjög afdráttarlaust að þeir upplifi að þeim vanti sárlega öflugan málsvara á Alþingi. Málsvara sem þoki hlutum áfram og standi með þeim. Vestlendingar, Vestfirðingar og íbúar á Norðvesturlandi hafa allir deilt því með mér að þeir upplifi það sterkt að þeir hafi verið skildir eftir. Það segir auðvitað ákveðna sögu. Sem ég tel mikilvægt að hlusta á.
Hjartað slær í kjördæminu
Við ykkur íbúa í Norðvesturkjördæmi langar mig að segja: Ég treysti mér til að vera sterkur málsvari fyrir ykkur öll. Ég lofa að mæta ekki bara á svæðið á fjögurra ára fresti og taka í hendur. Mig langar að verða hluti af samfélögunum og tala máli okkar allra. Mér einfaldlega rennur blóðið til skyldunnar að vinna með fólkinu í Norðvesturkjördæmi að áframhaldandi framförum og uppgangi. Það er mín ástríða. Hér slær hjarta mitt.
María Rut Kristinsdóttir
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi