Í gær var haldið afar fjölmennt útgáfuhóf í bókabúð Forlagsins Í Reykjavík. Tilefnið var að kynna nýja bók Ég skal hjálpa þér: Saga Auriar sem er rituð af Ísfirðingnum Herdísi Magneu Hübner.
Auri Hinriksson fæddist á Srí Lanka en flutti fertug til Ísafjarðar. Hún á að baki merka ævi og er þekktust fyrir að hafa aðstoðað fólk ættleitt frá Srí Lanka við að finna líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Í kynningu segir að Saga Auriar sé einstök frásögn af kjarkmikilli konu sem lætur ekki brjóta sig niður heldur rís upp og blómstrar mitt í mótlætinu.
Segja má að rúmgóð húsakynni Forlagsins hafi verið smekkfull. Sjá mátti fjölmarga sem eiga ættir sínar að rekja til Sri Lanka og hafa átt samskipti við Auri sem hefur aðstoðað þau við að leita uppruna síns. Einnig voru margir Vestfirðingar mættir og eins stór hópur Ísfirðinga sem búsettur er syðra. Fer ekki að á milli mála að Auri er vinamörg.
Herdís Hübner ásamt Hrafni M. Norðdahl.
Hluti af gestunum sem mættu á útgáfuhófið.
Meðal gesta var Ísfirðingurinn Jón Baldvin Hannibalsson.