Efnahagsævintýrið á Vestfjörðum

Ég sat fróðlegan fund á vegum Innviðafélags Vesfjarða í Skjaldborgarbíó á þriðjudaginn. Umræðuefnið var efnahagsævintýrið á Vestjfjörðum. Salurinn var fullur í þessu fornfræga húsi og eftirvæntingin mikil. Um var að ræða kynningu á greiningu og spá frá KPMG sem Soffía Eydís Björgvinsdóttir flutti um framlag Vestfirðinga til ríkisrekstursins, svokallað samfélagsspor Vestfjarða. Það er mikilvægt að halda þessum staðreyndum til haga þegar þrýst er á aukna innviðauppbyggingu í fjórðungnum. Forsenda þess að nýta öll þau tækifæri sem liggja hér allt um kring eru bættar samgöngur og aukið öryggi. 

Svar innviðaráðherra var afgerandi 

Ég sendi inn fyrirspurn á Alþingi í apríl um uppbyggingu jarðgangna á Vestfjörðum. Þar spurði ég innviðaráðherra, sem þá var Svandís Svavarsdóttir,hvort það kæmi til greina að mati ráðherra að flýta áætluðum framkvæmdum við Mikladal, Hálfdán og Súðarvíkurgöng til að tryggja jafnan aðgang að grunnþjónustu á svæðunum. Svör ráðherra voru í nokkuð löngu máli en inntakið var ekki flókið: Svarið var nei. Ráðherra taldi ekki hafa komið fram neinar upplýsingar sem réttlæti breytingu á forgangsröðun jarðgangnakosta. 

Í spá KPMG kom fram að fram undan er möguleiki á töluverðum vexti á Vestfjörðum. Það eru frábærar fréttir. En samkvæmt spánni má áætla að framlag Vestfjarða í ríkiskassann verði um 23 milljarðar árið 2028 og beint samfélagsspor Vestfjarða verður þá samkvæmt þessu mati um 14 milljarðar króna. Vestfirðingar skila hlutfallslega meira í útflutningstekjur en þar býr aðeins um 1.9% af heildaríbúafjölda landsins. 

Tækifærin eru alls staðar 

Við sem þekkjum hér til skynjum og finnum að hér eru gríðarleg tækifæri til að vaxa og dafna. Styrkja stoðir og tryggja bjarta framtíð. En til þess verðum við að fara að leysa hnútana og ýta málum áfram. Slík framtíðarsýn ýtir undir ruðningsáhrif í formi aukinnar nýsköpunnar og þróunar. Við eigum að leyfa okkur að hugsa stórt. 

Ef okkur er alvara að Vestfirðir eigi að verða eitt atvinnusvæði, eitt heilbrigðisumdæmi, eitt menntasvæði eða eitt löggæslusvæði þá eru bættar samgöngur hrein og klár forsenda. Það er stærsta jafnréttismálið, öryggismálið og framtíðarmálið fyrir Vestfirðinga.

Viðreisn mun berjast fyrir slíkum almannahagsmunum. 

Marría Rut Kristinsdóttir

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi 

DEILA