Eflum heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Eyjólfur Ármannsson, alþm.

Örugg heilbrigðisþjónusta er grundvallarforsenda fyrir sjálfbærni hinna dreifðu byggða um land allt. Mönnunarvandi heilbrigðisþjónustu er ein stærsta áskorun íslensks samfélags og áhrifa vandans gætir víða. Því miður hefur brösuglega gengið að tryggja fastráðningu heimilislækna á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana víða um land.

Rétt rúmlega helmingur stöðugilda heimilislækna á landsbyggðinni er mannaður af fastráðnum læknum og verktakar manna rúmlega fjórðung stöðugilda. Um fimmtungur stöðugilda er ómannaður.

Fyrirséð er að stór hluti fastráðinna lækna á landsbyggðinni fari á eftirlaun á næstu árum. Nánast helmingur nýútskrifaðra lækna sækir nám sitt erlendis og sérnám þarf í langflestum tilvikum að sækja út fyrir landsteinana. Sífellt fleiri læknar velja að starfa erlendis í stað þess að flytja heim að námi loknu.

Efla þarf sérnám í heimilislækningum hérlendis en það er elsta sérnámið sem kennt er hér á landi, hófst 1995. Mikilvægt er að það taki mið af þörfum landsbyggðarinnar með það að markmiði að fá lækna til starfa á landsbyggðinni.  

Fólk vill geta sótt sem mest af heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Það sýna rannsóknir. Þróunin hefur því miður verið sú á Íslandi að mönnunarvanda er mætt með því að draga úr nærþjónustu. Heilbrigðisþjónusta er flutt í auknum mæli til höfuðborgarsvæðisins og fjarheilbrigðisþjónusta er þróuð, sem getur átt við í ákveðnum tilfellum.

Ekkert kemur í stað læknisþjónustu í héraði. Hún er grundvallaratriði og kannanir sýna meiri ánægju með búsetu á þeim stöðum þar sem læknar búa og sinna læknisþjónstu. Hér er um gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir landsbyggðina.


Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur á Alþingi sem miða að því að bregðast við mönnunarvanda heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni með því að gera störf þar eftirsóknarverðari. Í tillögunni fólst í að koma á formlegu samstarfi milli sveitarfélaga á landsbyggðinni og heilbrigðisyfirvalda, þar sem leitað yrði leiða til að manna stöðugildi heimilislækna á landsbyggðinni. Mikilvægt er að sveitarfélög í sama landshluta eða héraði vinni saman með ríkisvaldinu að því að laða til sín lækna til búsetu og ráða í fullt starf. Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa kallað eftir slíku samstarfi til að tryggja mönnun læknisþjónustu svo að fólk þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að fá læknisþjónustu.

Heilbrigðismál eru eitt helsta forgangsmál Flokks fólksins. Undir yfirskriftinni Bætt heilbrigðisþjónusta fyrir alla viljum við efla opinbera heilbrigðiskerfið og tryggja fjármögnun þess að fullu. Við viljum endurskoða skipulag, verkaskiptingu og nýtingu húsnæðis og mannauðs innan heilbrigðiskerfisins um land allt og tryggja þannig skilvirkni og hagkvæmni.  Við viljum tryggja rétt allra til heilbrigðisþjónustu í og sem næst sinni heimabyggð. Aldrei má mismuna fólki vegna búsetu.

Mikivægt er að tryggja að kjör og starfsaðstæður allra sem vinna á heilbrigðisstofnunum séu í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar ef að takast á við langvarandi mönnunarvanda. Aðlaga þarf menntakerfið að starfsmannaþörf heilbrigðiskerfisins á komandi árum. Útskriftarvanda Landspítalans þarf með þjóðarátaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Lágmarka á gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu, nauðsynleg lyf og hjálpartæki.

Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í og sem næst heimabyggð. Efla þarf heilsugæslu í héraði með aukinni þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga. Samþætta þarf heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Flokkur fólksins vill stórefla geðheilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum, og hefja á án tafar byggingu nýs húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri þar sem engum verður vísað frá sem á hjálp þurfa að halda.

Heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þarf að efla með heimsóknum sérfræðilækna í hérað og skipulegri fjarþjónustu. Setja þarf ákvæði um það i samningum ríkis við sérfræðilækna.

Flokkur fólksins mun gera heilbrigðismál á landsbyggðinni og í landinu öllu að forgangsmáli eftir kosningar. Kjósum x-F. Kjósum bætta heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Fólkið fyrst – og svo allt hitt!

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður og oddviti F-lista Flokksins fólksins í Norðvesturkjördæmi. eyjolfur@flokkurfolksins.is

.

DEILA