Dynjandisheiði: nýr vegur kostar 10,4 milljarðar króna

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýr 35,2 km langur vegur yfir Dynjandisheiði kostar 10,4 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Framkvæmdin var samþykkt á samgönguáætlun árið 2020 og var þá talin kosta 5,4 milljarða króna.

Fyrsti áfangi var boðinn úr þá um sumarið og tveimur árum seinna var annar áfangi boðinn út og lauk honum nú í haust.

Eftir er 7,1 km langur kafli niður af heiðinni norðan megin og í Dynjandisvoginn.

Áfallinn kostnaður er nú 7 milljarðar króna. Eftirstöðvarnar og hluti af kostnaði þessa árs er talinn vera 3.400 milljónir króna svo heildarkostnaðurinn er nú áætlaður verða 10,4 milljarðar króna.

Síðasti áfanginn hefur ekki verið boðinn út, en Stefán Vagn Stefánsson, fyrti þingmaður Norðvesturkjördæmis sagði frá því á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í síðasta mánuði að umræður væru á Alþingi um að tilgreina ákveðnar vegaframkvæmdir í afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta árs og þá yrði hægt að bjóða þær strax út.

DEILA