Reykhólahreppur hefur nú hafið þátttöku í byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir.
Í gær var undirritaður samningur þess efnis á milli Byggðastofnunar, Reykhólahrepps og Vestfjarðastofu.
Byggðarlagið er það fimmtánda í röðinni sem hefur þátttöku í verkefninu frá því að það hóf göngu sína á Raufarhöfn árið 2012.
Nú fer í hönd undirbúningsvinna að þátttöku samfélagsins og samstarfsaðila í verkefninu þ.m.t. myndun verkefnisstjórnar, stöðugreining, könnun meðal íbúa og undirbúningur íbúaþings. Gert er ráð fyrir að íbúaþing verði haldið fljótlega á nýju ári. Þar mun íbúum gefast mikilvægt tækifæri til að ræða hagsmunamál byggðarlagsins og móta áherslur í verkefninu.
Sú nýjung er að samningur um verkefnið er gerður til fimm ára í stað fjögurra líkt og áður hefur verið gert í þátttökubyggðarlögum Brothættra byggða.
Því er gert ráð fyrir að verkefnið vari til ársloka 2029. Með lengingu framkvæmdatímabils standa vonir til að hægt verði að ná auknum árangri og skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf, mannlíf og búsetu í Reykhólahreppi.