Öll matvælafyrirtæki í Bolungavík eru lokuð í dag. Vatnsveita bæjarins , sem notast við yfirborrðsvatn réði ekki við vatnsveðrið sem var í gær, síur stífluðust og vatnið er mórautt og ekki hæft til vinnslu. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að ekki sé mælt með því til drykkjar. Hann á von á því að þetta verði viðvarandi ástand fram eftir degi a.m.k. en það muni lagast þegar styttir upp. Spáin sé ágæt á morgun en Jón Páll hvetur íbúa til þess að fylgjast með tilkynningum á samfélagsmiðlum kaupstaðarins.
Að sögn Jóns Páls er tenging á nýrri vatnsveitu sem notast við borholuvatn í stað yfirborðsvatns á lokastigi og vonast er til þess að taka hana í notkun í desember. Í haust voru boraðar nokkrar holur og fannst töluvert af góðu vatni.