Ævintýri eða ekki

Aftur í grárri forneskju fyrir tíma siðmenningar og mannréttinda bjó hnípin og uppburðarlítil þjóð í litlu landi langt út í buskanum. Í landi þessu voru mörg lítil ríki og margir smákóngar í hverju. Sumir þeirra áttu sér gullgæsir en aðrir lifðu af gjöfum móður náttúru sem ætlaðar voru öllum þegnum landsins til lífsviðurværis en þeir gerðu að sínum af því að þeir voru jú kóngar. þeir áttu sko allt þessir kóngar – ekki bara guðsgjafir allar heldur einnig sannleikann og lygina og gátu því ákveðið eftir hentileika hvað væri rétt og hvað rangt.

Eins og allir kóngar fyrr og síðar höfðu þeir í kringum sig hirð – þeir undirgefnustu – þeir sem kinkuðu brosandi kolli og samþykktu allt sem kóngarnir sögðu og fyrirskipuðu fengu bestu embættin í ríkjunum – embætti sem forréttindi fylgdu. Þeir áttu að hafa yfirumsjón með þegnunum og passa upp á að þeir hugsuðu rétt og væru ekki með neinn áróður gegn ríkjandi fyrirkomulagi.

Svo bar það við einhverju sinni að konu nokkur skaut óvænt upp kollinum í einu þessara ríkja – hún þótti hrokafull og óforskömmuð því hún hafði aðra sýn á lífið og tilveruna heldur en þá innrættu þar um slóðir. Kóngarnir sem alltaf voru vinir þegar á móti blés sáu að þarna fór hættuleg manneskja sem til alls var líkleg – þótti þeim því ráðlegast að hafa góðar gætur á henni.

Kóngarnir hóuðu saman í snatri öllum sínum ráðgjöfum sem komu úr hinum ýmsu klúbbum, flokkum og klíkum. Þeir voru uggandi mjög og héldu konukindina jafnvel vera norn úr austrinu send til að eitra andrúmsloftið í ríkjum þeirra með áróðri um frelsi, jafnrétti og bræðralag – en það sem þeir óttuðust mest af öllu var að hún væri gustur úr framtíðinni sem boðaði mannréttindi og um rétt allra til að fá að lifa mannsæmandi lífi og svoleiðis aðra vitleysu.

Eftir að hafa ráðfært sig við ráðgjafa sína komu kóngarnir sér saman um að best væri að einangra konukindina sem mest og bregða fyrir hana fæti hvar og hvenær sem færi gæfist og þá helst þar sem hún síst ætti von. Kóngarnir sem töldu sig best til þess fallna að hafa vitið fyrir öðrum kærðu sig ekki um norn úr austrinu í sínu ríki né heldur gust úr framtíðinni sem ruglað gæti undirgefinn lýðinn sem virtist sér vel undir þeirra forsjá.

Það bjuggu litli púkar innra með kóngunum sem kættust yfir hverju ráðabruggi og mátti þá búast við hvatningu frá þeim ef þau voru pínu kvikindisleg – það virkaði vel þar sem kæti litlu skrattanna var smitandi. Brátt urðu því hrakfallasögur af konukindinni ómissandi skemmtun í öllum betri samkvæmum – það var þá mikið hlegið, skellt á læri og sagt að seigt væri í helvítis kerlingunni um leið og skálað var í eðalvínum svo klingdi í kristalglösum.

Einn kóngur í þessu litla ríki í ríkinu þótti öðrum klókari – hann var nokkuð hávaxinn og svolítið reigður – kannski til að sýnast ögn herðabreiðari. Hann var álitinn frekur og forn í skapi þegnarnir margir hræddust hann því og voru sífellt að hafa eftir það sem hann hafði sagt eins og lög væru.

Hann átti góða vinkonu sem hann hafði miklar mætur á og matarást sem og vinir hans.

Kona þessi var rætin mjög og heimsins mesti lygalubbur. Það var eitthvað sem þeir allir kunnu vel að meta – þeir sáu að þessir eiginleikar gætu komið að góðum notum þar sem vinkonan var mikið á ferðinni. Já, eiginlega var hún eins og flugnasveimur yfir mykjuskán þar sem hún fór um og dreifði sannleikanum eins og bestur hann þótti. Hún vildi vissulega allt fyrir þá gera ekki síður en þeir fyrir hana.

Innra með vinkonunni bjó líka lítill púki en hann var ekki eins og púkarnir sem bjuggu innra með kóngaslektinu. Hennar púki var óttaleg nöldurskjóða sem stöðugt minnti hana á eigin lítilmótleika og hversu í raun hún væri ósátt við eigið sjálf og þegar hann potaði í hennar veikasta blett öfundsýkina þá varð hún mjög herská.

Konukindin sem í upphafi átti sér einskis ills von varð á endanum að þráhyggju hjá kóngum og  vinkonu þeirra. Hún var hrakin í hreysi eitt þar sem fátt var um þægindi – þar vöktu yfir hverju hennar skrefi geldingar, gamlar konur og stöku pörupiltar – vegið var að heilsu hennar, klæði rifin, fátæklegum eigum stolið eða þær eyðilagðar – á öðrum stöðu var svo klipið var lífsviðurværi hennar.

Lengi leitaði konukindin að réttlætinu en það var hvergi að finna í landinu öllu og enginn hafði heyrt minnst á mannréttindi því framtíðin með sínum breytingum hafði ekki látið sjá sig í landinu – því stóð þar allt í stað.

Örþreytt konukindi hafði ekki önnur ráð svo döpur settist hún niður og beið síns vitjunartíma óhrædd við að mæta skapara sínum. En kóngarnir voru konukindinni reiðir því hún hafði með leit sinni að réttlætinu valdið usla í ríkjum þeirra og sett bletta á þeirra sannleika – en þeir ætluðu nú samt að nota hann til að láta loka hana inni og hirða af henni aleiguna því brölt hennar hafði kostað þá útlát.

Enginn veit hvernig þetta fór að lokum því því engar spurnir hafa langa lengi borist af landinu gleymda sem framtíðin með sínum breytingum hafði sniðgengið.

————————————

Ævintýrin voru á tímum ritskoðunar í og með dulbúin gagnrýni á stjórnvöld hverju sinni – sem oft á tíðum neituðu að viðurkenna tilverurétt almúgans á sama tíma og þau gengu erinda spilltra fyrirmanna sem kunni sér engin takmörk hvorki í einu né neinu.

Háðar hafa verið margar orrustur í gegnum tíðina þar sem barist hefur verið fyrir tjáningarfrelsinu – sem er undirstaða allra annarra réttinda.

Í dag þykir tjáningarfrelsið sjálfsagt í orði kveðnu en þegar á reynir þá virðist stundum annað upp á teningnum – sér í lagi ef spjótum er beint að einhverjum þeim er teljast til mekta.

Í slíkum tilfellum hendir það stundum þegar minni spámenn eru annars vegar að það er einfaldlega lokað á þá og látið eins og þeir séu ekki til – orðstír forréttindana þá látin vega þyngra á vogaskálum réttlætisins án dóms og laga og eftir sitja minnipokamanneskjurnar óbættar hjá garði sviptar rétti sínu til að verja sig.

Í ævintýrunum voru alltaf skörp skil milli góðs og ills og ranglætið var svo hrópandi að það gat ekki farið framhjá neinum – en eftir marga hildi hafði það góða oftast betur og gat því sigri hrósandi siglt réttlætinu í höfn.

Í raunheimum er veruleikinn öllu ófyrirsjáanlegri og oft allur annar eins og áður hefur komið fram og ef tækifærismennskan fær að yfirtaka réttlætið þá munu mörkin milli góðs og ills smá saman mást út og mennskan þar með láta í minni pokann.

Kúgun, ofríki og óttastjórnun getur ruglað siðferðisvitund manna – þegar hún dofnar þá dofnar samkenndin einnig og þegar samkenndin er farin sem er undirstaða mennskunnar þá er sundrungin vís – vantraust og óöryggi verður þá ríkjandi og fólk fer að einangra sig.

Ofríkið er lúkskt – það læðist aftan að fólki og grípur það heljartökum þegar það er hvað varnarlausast. Enginn skyldi halda sig undanskilinn þegar ofríkið er annars vegar né heldur tækifærismennskan – sem þekkt er fyrir að svíkja loforð og misnota vináttu.

Við erum flest okkar allt lífið að byggja okkur upp, treysta bönd og búa í haginn. Við leggjum í þessa vegferð full af bjartsýni og trú – ekki bara á okkur sjálf heldur einnig á samferðarfólk og það samfélag sem við búum í og við treystum því líka að búið sé svo um hnútana í okkar velferðarþjóðfélagi að bjargir séu vísar þegar á bjátar. En það er samt eitt sem fæst okkar gera ráð fyrir – en það er sviksemi og baktjaldamakk – það reiknar örugglega enginn með að misráðnar ákvarðanir annarra teknar utan sjóndeildarhrings og laga geti kollvarpað tilverunni á stuttum tíma og hrifsað burt allt það sem áður hafði verið byggt upp í góðri trú og bjartsýni.

Þeir sem reynt hafa kannski oftar en einu sinni kannast við að það getur verið erfitt að rísa upp aftur til að takast á við hlutina á ný – ekki síst vegna þess að svona skellur skilur eftir sig tóm hið innra – traustið farið og vonin sem áður hvatti viljann vart nema hálf.

Við hljótum mörg að velta fyrir okkur á þessum síðustu og vestu hversu langt sé hægt að ganga til að verja forréttindi sem sjaldnast eru byggð upp af heilindum og hvort yfir höfuð sé réttlætanlegt að fórna sumum til að bjarga öðrum undan ábyrgð.

Það er sagt að mennskan sé á undanhaldi – hvað tekur þá við – samviskuleysið ?

Mennskan er örugglega ekki fyrirferðamikil hjá þeim samviskulausu – það má því gera ráð fyrir auknu ofbeldi í þjófélaginu ef samviskuleysið yfirtekur mennskuna.

Hvað ætli bærist annars í kollinum á þeim sem taka meðvitaða ákvörðun um að skaða aðra og hvað með sjálfsvirðinguna hjá þeim sem kjósa að líta undan þó skyldur þeirra kalli eftir viðbrögðum ?

Það eru ekki margir sem samþykkja ofbeldi í sínu nánasta umhverfi – ofbeldi hefur því ekki bara áhrif á þá sem fyrir verða heldur einnig á líðan þeirra sem vita af því og eða verða vitni af.

Samfélag sem samþykkir ofbeldi með aðgerðar og sinnuleysi getur að óbreyttu ekki orðið gott samfélag – þar sem ofbeldi er fyrir er ekki mikið rými fyrir sátt, samlyndi og umhyggju – sem er undirstaða þess að fólki geti liðið vel.

Virða bera friðhelgi einkalífs sem sjálfsögð mannréttindi – það er eitthvað svo óviðkunnalegt að rjúfa hana – svo hnýsið og yfirgengilega frekt.

Tillitssemi kostar ekki neitt.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Öryrki

                                       Ef aðeins tíu af oss legðu sig alla fram til góðs yrðum

                                       vér brátt orðin tuttugu, þeir tuttugu fimmtíu, þeir fimmtíu

                                       hundrað, þeir hundrað þúsund og það þúsund mundi hafa

                                       áhrif á alla borgina.

                                                                          Johannes Krysostomos

DEILA