Vorið 2022 samþykkti Alþingi 3. áfanga rammaáætlunar, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar eru tvær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum í nýtingarflokki. Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun.
Nú hafa frambjóðendur keppst við að gefa upp álit sitt á virkjunum og þá sérstaklega hvort þeir styðji eða hafni Hvalárvirkjun. Formaður Vinstri grænna , Svandís Svavarsdóttir, lét hafa það eftir sér í Spursmálum á mbl.is á dögunum að hún væri ekki fylgjandi því að Hvalárvirkjun á Vestfjörðum verði að veruleika. Samt greiddi hún atkvæði MEÐ því þegar rammaáætlun þrjú var samþykkt frá Alþingi. Hver er munurinn á ákvörðun ráðherrans við atkvæðagreiðsluna eða skoðun frambjóðandans Svandísar í þessu máli? Athyglisvert.
Það þarf ekki að spyrja mig, ég stend með ákvörðun minni er ég ritaði undir meirihlutaálit sem afgreitt var út úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um rammaáætlun 3. Ég styð Hvalár- og Austurgilsvirkjun því okkur vantar orku á Vestfjörðum. Það þarf ekki að spyrja mig aftur.
Kjósum með Vestfirðingum
Vestfirðingar verða að komast í þá stöðu að þurfa ekki lengur að brenna olíu til raforkuframleiðslu, því ástandi verður að ljúka. Stöðin í Bolungarvík var aldrei ætlað að vera annað en varaaflstöð. Hvalárvirkjun er mikilvæg í þessu samhengi, sem og aðrir möguleikar til virkjana á Vestfjörðum og á landsvísu.
Atvinnulíf á Vestfjörðum er loksins að blómstra á ný eftir áratuga stöðnun og hnignun. Nærri 30 milljarða króna innspýting í samgöngur á síðustu árum hefur skipt sköpum. En við megum ekki halda að nú sé komið gott. Það verður að halda áfram að byggja upp innviði og tryggja áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Við í Framsókn höfum unnið að þessu síðustu ár og ætlum að halda því áfram.
Það þarf því ekkert að spyrja okkur, eins og hin framboðin, hvað við viljum. Við höfum þegar sýnt það í verki og ætlum að halda því áfram.
Halla Signý Kristjánsdóttir
Höfundur er þingmaður og í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi