Í vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þann 1.nóvember mun Gylfi Ólafsson kynna aðdraganda útgáfunnar Lög frá Ísafirði sem kemur út á næstu dögum og fer hann yfir sögu nokkurra þeirra laga sem þar er að finna. Í bókinni Lög frá Ísafirði eru laglínur, textar og hljómar að 37 lögum frá Ísafirði, eftir Ísfirðinga eða tengd Ísafirði eða nærsveitum nánum böndum. Öllum lögum fylgir stuttur inngangur auk þess sem bókina prýða ljósmyndir Hauks Sigurðssonar úr þessum mikla tónlistarbæ. Ritstjóri og útgefandi er Gylfi Ólafsson, sem einnig tölvusetti stærstan hluta nótnanna. Lögin eru misgömul og misþekkt, eftir höfunda á öllum aldri frá ýmsum tímum, þau nýjustu frá því í ár. Fæst laganna hafa birst á prenti áður og sum ekki einu sinni verið hljóðrituð. Fjögur laganna heita til dæmis „Ísafjörður“.
Gylfa Ólafsson þarf vart að kynna , en stutt um tónlistarbakrunn hans, hann stundaði píanónám hjá Elínu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Ísafjarðar og hefur síðar fengið tilsögn í djasspíanó- og klarínettleik.
Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku