Ég heiti Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Ég er fædd og uppalin í Fremri Gufudal í Reykhólahreppi. Ég bý með Styrmi Sæmundssyni og börnunum okkar þremur; Ásborgu, Einari Val og Yrsu Dís í Kaplaskjóli í Fremri Gufudal. Þar sem við rekum sauðfjárbú ásamt foreldrum mínum og systur.
Í gegnum tíðina hafa flest mín störf verið tengd félagsmálum. Ég starfaði í mörg ár í ungmenna og tómstundabúðunum að Laugum í Sælingsdal þar sem ég byrjaði 20 ára gömul. Það staf mótaði mig að stórum hluta í að fá brennandi áhuga á félags- og tómstundamálum. Síðan varð ég tómstundafulltrúi Reykhólahrepps og ég gengdi því starfi þangað til í haust. Núna er ég að taka mín fyrstu skref í kennslu í Reykhólaskóla, samhliða því að vera í kennaranámi í Háskólanum á Akureyri. Ég er oddviti Reykhólahrepps, er að ljúka kjörtímabili sem formaður stjórnar Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga og á tyllidögum þykist ég stundum vera bóndi.
Ég hef mikinn áhuga á margskonar útivist, aðallega í góðu veðri samt. Að vera á fjalli í góðu haustveðri að rölta á eftir óþekkri kind, með góðan smalahund (í láni frá manninum mínum) eru mjög gefandi aðstæður. Þau forréttindi að fara í reiðtúr á björtu sumarkvöldi á góðum hesti (nánar tiltekið rauðblesótt hryssa sem heitir Ameríka) gefa mér einhverja þá mestu hugarró sem hugsast getur. Ég hef einlægan áhuga á byggðaþróunarmálum, með sérstaka áherslu á dreifðar byggðir. Svo þegar ég hef verið mjög upptekin í langan tíma, sem gerist alveg, þá finnst mér mjög gott að planta mér fyrir framan sjónvarpið, hámhorfa á Netflix og knúsa börnin mín.
Mér finnst mjög gaman að vera í kringum börn og ungmenni og hlusta á skoðanir þeirra, viðhorf og hugmyndir.
Það má því segja að ég búið við þau forréttindi undanfarin 20 ár að hafa fengið að starfa við hluti sem ég hef brennandi áhuga á og hafa veitt mér mikla gleði og ánægju. Þannig að það er mjög gott að staldra við reglulega og vera þakklátur.
Bestu kveðjur úr Gufsunni*
Jóhanna Gufsari
*Gufsan er gamalt gælunafn á gamla Gufudalshrepp. Íbúar Gufdalshrepps voru kallaðir Gufsarar og ekki þótti öllum vænt um það viðurnefni.